Fréttir
FSRE „reynir að klóra yfir eigin mistök“
21.10.2025 kl. 16:15

Fyrirhugað hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði. Mynd af vef Húsheildar/Hyrnu
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE), rifti sl. föstudag verksamningi við verktakafyrirtækið Húsheild/Hyrnu ehf. um byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði. Á vef FSRE segir að riftunin byggi „á skýrum vanefndum verktaka“ en við annan tón kveður í tilkynningu Guðlaugs Arnarssonar, framkvæmdastjóra Húsheildar/Hyrnu á Akureyri sem akureyri.net barst síðdegis í dag.
Umgjörðin með eindæmum
Guðlaugur segir umgjörð verkefnisins af hálfu FSRE hafi verið með miklum eindæmum frá upphafi, hönnunargögn hafi verið ófullnægjandi og ókláruð þegar verkið var boðið út og nú, þremur árum síðar, séu hönnunargögn enn ófullnægjandi.
Það er frumskylda verkkaupa að leggja til fullnægjandi gögn, segir Guðlaugur, að verkið hafi tafist mjög vegna þessa, verkkaupi hafi brugðist við með því að draga háar tafabætur af greiðslum og hótað riftun. Verkið hafi með því verið sett í uppnám. Þá segir Guðlaugur að framkoma starfsmanna FSRE gagnvart starfsmönnum Húsheildar/Hyrnu hafi verið óásættanleg; framkvæmdasýslan og starfsmenn hennar hafi með háttalagi sínu og framkomu siglt verkinu í strand og reyni nú að klóra yfir eigin mistök með því að rifta verksamningi. „Húsheild mun leita réttar síns og verður málinu vísað til dómstóla ef þörf krefur,“ segir í tilkynningunni.
Tilkynning Húsheildar/Hyrnu er svohljóðandi í heild:
Framkvæmdasýslan (FSRE) hefur rift samningi við Húsheild/Hyrnu ehf. um byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði. Verksamningurinn var undirritaður þann 12. október 2022 og framkvæmdir hafa staðið yfir frá árinu 2023.
Umgjörð verksins af hálfu Framkvæmdasýslunnar hefur frá upphafi verið með miklum eindæmum. Hönnunargögn voru ófullnægjandi og ókláruð þegar verk var boðið út og hefur það hamlað framgangi verksins frá upphafi. Nú, þremur árum síðar, eru hönnunargögn enn ófullnægjandi.
Það er frumskylda verkkaupa að leggja til fullnægjandi gögn. Verkið hefur tafist mjög vegna þessa alls og verkkaupi hefur brugðist við með því að draga háar tafabætur af greiðslum og hóta riftun. Með því hefur hann sett verkið í uppnám og valdið enn frekara tjóni og töfum.
Þá hefur framkoma stofnunarinnar og starfsmanna hennar gagnvart starfsmönnum Húsheildar/Hyrnu verið óásættanleg og hefur versnað eftir því sem liðið hefur á verktíma.
Framkvæmdasýslan og starfsmenn hennar hafa með háttalagi sínu og framkomu siglt verkinu í strand og reyna nú að klóra yfir eigin mistök með því að rifta verksamningi. Húsheild mun leita réttar síns og verður málinu vísað til dómstóla ef þörf krefur.
Það er óskandi að í kjölfarið verði verkið, aðdragandi þess og framgangur, ítarlega rýnt innan þeirra ráðuneyta sem bera ábyrgð á Framkvæmdasýslunni til að fyrirbyggja að viðlíka sóun á almannafé endurtaki sig.