Fara í efni
Mannlíf

Frítt inn á 15 söfn á Eyfirska safnadeginum

Hið frábæra Smámunasafn í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Hið frábæra Smámunasafn í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eyfirski safnadagurinn verður haldinn sunnudaginn 12. september. Fimmtán söfn taka þátt að þessu sinni og það er frítt inn á þau öll. Vanalega hefur Eyfirski safnadagurinn verið haldinn á sumardaginn fyrsta, en vegna fjöldatakmarkana var honum frestað til haustsins. Á hverju ári er nýtt þema fyrir safnadaginn og í ár er það einmitt haustið sem lögð verður áhersla á.

Eyfirski safnadagurinn hefur verið haldinn frá því 2007, að síðasta ári undanskildu, og hefur alltaf verið mjög vel sóttur.

Söfnin sem um ræðir spanna svæðið frá Siglufirði til Grenivíkur og flóran er fjölbreytt. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og nýtt tækifærið til að fara á söfn sem setið hefur á hakanum að heimsækja.

Það er Safnaklasi Eyjafjarðar sem stendur fyrir viðburðinum og safnafólk skiptist á að taka að sér skipulagningu. Stjórn Safnaklasans, sem Linda Ásgeirsdóttir hjá Húsi Hákarla-Jörundar, Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafns Íslands og Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafns Íslands skipa, hafa haft veg og vanda að því að skipuleggja og kynna daginn ásamt Haraldi Þór Egilssyni safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri.

Í viðtali við Gígju Hólmgeirsdóttur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sögðu þau Haraldur Þór og Steinunn María að starfsmönnum safnanna væri umhugað um hlutverk safnanna, þ.e. að þau væru til fyrir samfélagið. Hlutverk þeirra væri að varðveita sameiginlegan menningararf og miðla honum til almennings.

Með Eyfirska safnadeginum er hægt að laða til sín mun fleiri gesti og að sögn Haraldar Þórs hefur reynslan sýnt að fólk heimsæki jafnvel 3–5 söfn á Eyfirska safnadaginn.

Og Steinunn María bætti við: „Það er líka tilgangurinn með Eyfirska safnadeginum sem verður núna á sunnudaginn. Við erum ekki bara til fyrir erlenda ferðamenn þó við séum auðvitað hluti af ferðaþjónustunni, en þá viljum við auðvitað líka vekja athygli heimamanna og landsmanna á söfnunum og fá þá í heimsókn.“

Góð stemning ríkir í hópi eyfirskra safnamanna, sem hlakka til að opna dyr sínar og bjóða alla velkomna.

Nánari upplýsingar um opnunartíma og viðburði má finna á samfélagsmiðlasíðum hvers safns fyrir sig.