Fara í efni
Fréttir

Framtíð Freyvangs, Laugalands og Sólgarðs

Sólgarður, þar sem Smámunasafn Sverris Hermannsson er til sýnis. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sala á félagsheimilum í Eyjafjarðarsveit hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. Staðið hefur til að selja fasteignirnar; Sólgarð, Freyvang og gamla Laugalandsskóla.

Fjármögnun nýbyggingar leik- og grunnskóla

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, sagði í samtali við Akureyri.net að aðal ástæða fyrir sölunni væri fyrst og fremst að fjármagna nýja byggingu á grunn- og leikskóla en einnig til að létta á rekstri sveitarfélagsins þegar nýtt 2000 fermetra húsnæði verður tekið í notkun. „Þá viljum við ekki vera með fleiri fermetra í rekstri. Við þyrftum að dreifa mannskapnum okkar meira.“

Freyvangur

Sölu á Freyvangi hefur verið slegið á frest og umræður eru í gangi milli Freyvangsleikhússins og sveitastjórnarinnar um leigu þess fyrrnefnda á húsnæðinu til tveggja ára.

Laugaland

Á Laugalandi hefur Barnaverndarstofa verið með starfsemi til langs tíma. Undanfarið ár hefur starfsemin legið í dvala, en er nú að fara í gang aftur til allavega fjögurra ára. Finnur Yngvi segir að sveitarfélagið fagni því mjög og bætir við: „Mikið og gott samstarf hefur verið milli Barnaverndarstofu og Hrafnagilsskóla þar sem skjólstæðingar hafa sótt menntun. Sveitarfélagið stefnir á að selja húsnæði sitt að Laugalandi í framtíðinni en vonast þó til að starfsemi Barnaverndarstofu verði áfram í húsinu um ókomna tíð.“

Sólgarður

Sólgarður var félagsheimili Saurbæjarhrepps hins forna og er staðsett stutt frá Saurbæjarkirkju; sem er friðlýst og í vörslu Þjóðminjasafnsins. Í Sólgarði er Smámunasafn Sverris Hermannssonar í sýningu en Sverrir færði sveitinni safnið að gjöf árið 2003.

Finnur Yngvi segir að Sólgarður bjóði upp á ýmsa möguleika. Þar er fyrir íbúð, og auðvelt sé að gera aðra og einnig er þar stór bílskúr. Hann bætir við: „Og ef einhver hefur áhuga á að vera með einhvern rekstur þá er það mögulegt. Ef sá aðili hefði áhuga á að vera með menningartengdan rekstur gæti Smámunasafnið verið áfram í Sólgarði.“

Framtíð Smámunasafnsins

Akureyri.net lék forvitni á að vita hvort Sverrir Hermannsson hefði sett kvaðir eða skilyrði þegar hann afhenti Eyjafjarðarsveit safnið sitt. Finnur svarar því til að eina skilyrðið hafi verið að varðveita safnið. „en ekki samkomulag um að það verði að vera til sýnis í sjálfu sér – heldur að varðveita munina.“ Hann bætir við að ekki sé þó komin niðurstaða í hvar safnið verði ef það þarf að flytja það. „Við myndum reyna að finna því annan stað hvort sem það væri hér á svæðinu eða ekki, en það var væri vissulega fyrsti kostur að safnið verði áfram til sýnis“, segir Finnur Yngvi að lokum.

Úr Smámunasafninu í Sólgarði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Félagsheimilið Freyvangur. Mynd af vef Eyjafjarðarsveitar.