Fara í efni
Íþróttir

Framarar eru áfram langefstir

Bjarki Þór Viðarsson og brasilíski Framarinn Fred berjast um boltann í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar lutu í gras í kvöld þegar topplið Fram kom í heimsókn í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Framarar sigruðu 2:0 og eru sem fyrr lang efstir í deildinni.

Framarar voru mun betri í fyrri hálfleiknum en skoruðu ekki fyrr en á lokamínútunni; Alexander Már Þorláksson sneiddi boltann í markið með höfðinu eftir hornspyrnu. Þórsarar voru líkari sjálfum sér í seinni hálfleik en höfðu þó ekki erindi sem erfiði og þegar þeir lögðu allt í sölurnar til að jafna skoruðu Framarar aftur; Indriði Áki Þorláksson, tvíburabróðir Alexanders, gulltryggði sigur þeirra með marki eftir skyndisókn í blálokin.

Töluverð harka einkenndi viðureign liðanna. Dómarinn gerði þau mistök snemma leiks að gefa Framaranum Hlyni Atla Magnússyni ekki gult spjald fyrir hættulega tæklingu heldur lét tiltal nægja. Hugsanlega töldu menn að dómarinn hefði þar með gefið tóninn en svo var ekki því spjöld fóru á loft fyrir minni sakir, þótt sum hafi sannarlega verið réttmæt, og í nokkrum tilvikum komust leikmenn liðanna svo upp með framkomu sem hefði þurft að refsa fyrir en var ekki gert. Einhvern tíma hefði til dæmis verið dæmdur háskaleikur á varnarmann Fram undir lokin þegar hann var í baráttu um boltann við Jóhann Helga Hannesson, nokkrum andartökum áður en Framarar sneru vörn í sókn og gerðu sigurmarkið. Þá rak leikmaður Fram fót tvívegis í höfuð Daða Freys, markvarðar Þórs, þar sem hann lá; engan veginn er hægt að halda því fram að það hafi verið viljandi, en í hvorugt skiptið var dæmt brot.

Framarar vita eins og aðrir að Þórsarar eru þekktir fyrir að gefa ekki tommu eftir og það var ljóður á leik þeirra bláklæddu hve auðveldlega þeir féllu í grasið við litla snertingu eða jafnvel enga, að því er virtist til að leiða dómarann í gildru. Hann lét sjaldnast blekkjast en í fáein skipti sluppu Þórsarar hins vegar með skrekkinn þegar full ástæða hefði verið til að dæma á þá! 

Þórsarar geta þó fráleitt kennt öðrum en sjálfum sér um að hafa tapað. Þeir léku einfaldlega ekki nógu vel þegar á heildina er litið og það verður að segjast að Fram er lang besta liðið sem sótt hefur Þór heim í sumar. Framarar sitja ekki á toppi deildarinnar fyrir tilviljun.

Athygli vakti að franski framherjinn Dominique Malonga var í byrjunarliði Þórs í fyrsta skipti en Jóhann Helgi Hannesson leysti hann af hólmi eftir fyrri hálfleikinn. Vonandi býr meira í þeim franska en hann sýndi í kvöld því hann olli miklum vonbrigðum.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Tónninn ekki gefinn! Hlynur Atli Magnússon slapp með tiltal fyrir þessa tæklingu snemma leiks. Hann fór þó ekki með báða fætur á undan sér, eins og sagt er á fótboltamáli, þótt svo kunni að sýnast, en tæklingin var hættuleg og gult spjald hefði verið sanngjörn refsing. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Jóhann Helgi Hannesson og Bjarki Þór Viðarsson algjörlega óvaldaðir eftir hornspyrnu; þetta er nánast dauðafæri fyrir Jóhann Helga, þann frábæra skallamann, en þeir virtust trufla hvorn annan og færið fór forgörðum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.