Fara í efni
Fréttir

Frábærar aðstæður - fólk virði sóttvarnarreglur

Frábærar aðstæður - fólk virði sóttvarnarreglur

Aðstæður til útivistar eru frábærar á Akureyri í dag og góð veðurspá fyrir helgina; brekkur í Hlíðarfjalli nýtroðnar sem og göngubrautir, að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, svæðisstjóra í Hlíðarfjalli, og paradísin Kjarnaskógur stendur undir nafni að sögn göngufólks.

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli er opið til klukkan 19.00 í kvöld, á morgun og sunnudag frá klukkan 10.00 til 13.00 og aftur frá 14.00 til 17.00. Búið er að opna efri hluta svæðisins, sem var lokaður framan af vikunni vegna snjóflóðahættu.

Nú síðdegis er logn og fjögurra stiga frost í Hlíðarfjalli og spáin er fín fyrir helgina, 6 til 12 stiga frost og hægur vindur.

Brynjar Helgi vill minna fólk á samkomutakmarkanir vegna Covid. Mikilvægt sé að panta tíma í fjallið á heimasíðunni – smellið HÉR til að panta og þá leggur hann ríka áherslu á að fólk virði tveggja metra regluna. „Sumir gleyma sér í gleðinni og gleyma að setja upp grímu. Grímuskylda er fyrir fullorðna á svæðinu og mjög mikilvægt að fólk fari eftir því,“ sagði Brynjar Helgi.

Troða göngubraut á golfvellinum

Til stendur að troða gönguskíðabraut í gegnum golfvöllinn að Jaðri á morgun, laugardag, alla leið norður að Miðhúsabraut. Þannig verður hægt verður að komast inn á sporið á nokkrum stöðum, til móts við Brálund/Daggarlund, við golfskála GA, frá Bílastæði í Sómatúni, við Hamra og svo á þremur stöðum inni í Kjarnaskógi.