Fara í efni
Menning

Fordómaþvottur í boði í Listagilinu í sumar

„Þetta er gott fyrir sálina, hjartað og hugann“ segir listakonan Þóra Karlsdóttir sem býður gestum og gangandi upp á sérstakan fordómaþvott í Listagilinu á Akureyri í sumar.

Verkið „Ókeypis fordómaþvottur“ kom upp fyrir örfáum dögum, og er að sögn Þóru hugsað sem viðeigandi inngrip í sumar. „Ég held við séum ekki alveg komin nógu langt þegar kemur að fordómunum. Við þurfum stöðugt að minna okkur á og gefa fólki tækifæri á að hreinsa til í huganum.“ Verkið var fyrst sett upp á hinsegin dögum í Grundarfirði í fyrra en nú gefst Akureyringum og öðrum sem leið eiga um miðbæinn kostur á að stinga hausnum í þvott og hreinsa hugann.


Fordómaþvottinn er hægt að fá efst í Listagilinu, nálægt Rösk.

Listaverkið, sem er í formi litríkrar þvottavélar, er í senn fyndið, beitt og hugsanavekjandi. Það stendur ofarlega í Listagilinu og hvetur fólk til að leggja frá sér fordóma og opna hugann. Um er að ræða sjálfstætt framhald af þekktu verki Þóru sem lengi stóð í Listagilinu og snérist um heilaþvott. „Heilaþvotturinn sló alveg í gegn og hann er enn í boði, bara á öðrum stað í bænum,“ segir Þóra og bætir við að það sé til þess gert að enginn sleppi við „þvottinn“, jafnvel þótt hann forðist Listagilið. Heilaþvottavélin er nú við Fróðasund 3 á Eyrinni, húsið sem stendur næst Glerárgötu.

Aðspurð út í tilurð verksins segir Þóra að það hafi upphaflega ekki komið til að góðu. „Ég flutti inn í íbúð efst í Gilinu þar sem fyrri íbúar höfðu skilið þvottavél eftir úti. Ég pirraðist á henni en sá svo tækifæri í að snúa þvottavélinni upp í list. Þetta var 2013 eða 14.“


Ókeypis heilaþvott er enn hægt að fá á Eyrinni á Akureyri. Þvottavélin er staðsett við Fróðasund 3 Mynd: Thora Karlsdóttir ART 

Heilaþvotturinn mjög vinsæll

Heilaþvotturinn var það eftirsóknarverður á sínum tíma að Þóra mátti hafa sig alla við að halda í verkið. „Já, skiltið var alltaf að hverfa af þvottavélinni og þurfti ég margoft að endurgera það. Að lokum var allri þvottavélinni stolið. Lögreglan tók þessu mjög alvarlega og fann verkið inni í Kjarnaskógi,“ rifjar Þóra upp og bætir við að hún telji að einhver af þessum skiltum hangi nú uppi á heimilum á Akureyri og lifi þar sjálfstæðu lífi sem listaverk. Þóra hvetur annars fólk til að mæta í Gilið og nýta sér fordómaþvottinn í sumar og vonast hún til þess að verkið fái að standa þar óáreitt. Segir hún ekki nauðsynlegt að fólk stingi hausnum inn í vélina heldur getur nærveran við verkið ein og sér haft áhrif, oftast dugi að horfa á vélina og hugsa um sína fordóma.