Fögnuðu 40 ára afmæli Blikkrásar – MYNDIR
Í ársbyrjun fagnaði Blikkrás á Akureyri 40 ára afmæli og af því tilefni bauð fyrirtækið verktökum og viðskiptavinum upp á léttar veitingar á föstudaginn.
Oddur Helgi Halldórsson og fjölskylda hans stofnuðu Blikkrás árið 1986 og ráku það um langt árabil. Fyrir tveimur árum keyptu Ottó Biering Ottósson og fjölskylda Blikkrás og er Ottó framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Ottó var að vonum kampakátur á þessum tímamótum og sagði í spjalli við akureyri.net að það væri ekki sjálfgefið að fyrirtæki næðu þessum aldri. Og hann er bjartsýnn á framtíðina. „Það hefur verið mikill vöxtur í starfseminni og mikil tækifæri framundan,“ segir hann og bendir á að starfsemi Blikkrásar snúist um margt fleira en blikksmíði. Það er til dæmis mjög vaxandi eftirspurn eftir loftræstikerfum í allar tegundir bygginga. „Undanfarið hefur orðið vitundarvakning í því að góð loftgæði skipta mjög miklu máli, hvort sem það er á heimilum eða vinnustöðum,“ segir Ottó.

Valur Júlíusson og Sigtryggur Veigar Herbertsson.
Blikkrás býður upp á heildarlausnir í loftræstikerfum. Allt frá hönnun, loftgæðismælingum og ráðgjöf til pöntunar, uppsetningar og reglulegrar þjónustu. Þjónusta og viðhald stærri kerfa fer vaxandi og Ottó segir að sala á búnaði sé líka alltaf að aukast og þau flytji sífellt meira inn sjálf. Smíði úr ryðfríu og svörtu stáli hefur aukist mikið, t.d. handrið, innréttingar og lausnir tengdar stóreldhúsum.
Starfsemi Blikkrásar nær um allt land og Ottó nefnir að það hafi verið dálítil minnimáttarkennd hér á svæðinu gagnvart því að hasla sér völl á höfuðborgarsvæðinu. „En Reykvíkingar koma hingað með alls konar þjónustu og vinnu kringum byggingariðnaðinn og fasteignir almennt,“ segir hann.
Sem dæmi um annars konar verkefni sem fyrirtækið sinnir eru klæðningar utan á hús. „En það er bara spurning um tíma og mannskap, svo hægt sé að sinna þessu. Okkur hefur fjölgað verulega en þurfum fleira fólk. Það er ekki auðvelt að finna fólk með reynslu en í svona fjölbreyttri starfsemi þá þurfum við fólk með mjög mismunandi þekkingu,“ segir Ottó Biering Ottósson að lokum.

Hjörleifur Árnason, Guðmundur Heiðar Hannesson og Aron Ernir Guðmundsson.

Gunnar Valur Eyþórsson og Ottó Biering Ottósson.

Hermann Biering Ottósson og Valgeir Páll Guðmundsson.

Þorgeir Valdimar Jónsson, Helga Eymundsdóttir og Jón Ingi Sveinsson.

Jón Rúnar Rafnsson, Helgi Snæbjarnarson og Haraldur Helgason.

Ómar Gylfason, Skúli Þór Pálsson og Hannes Jónsson.

Guðmundur Heiðar Hannesson og Lúðvík Áskelsson.

Sveinn Elías Jónsson og Rúnar Þór Sigursteinsson.

Ámundi Rögnvaldsson, Andri Björn Sveinsson og Hermann Biering Ottósson.

Lúðvík Áskelsson, Ómar Gylfason og Einar Eyland.