Flugeldar – Hvað er til ráða þegar jörð er auð?
„Þetta hefur gengið mjög vel og verið nokkuð svipað og síðustu tvö ár,“ segir Tumi Snær Sigurðsson hjá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, aðspurður um hvernig gengi að selja skotelda fyrir áramótin. Flugeldasalan er opin til kl. 16 í dag og síðan stendur sveitin fyrir veglegri flugeldasýningu í kvöld, í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar.
Þótt terturnar, eða skotkökurnar, njóti vaxandi vinsælda leikur blaðamanni forvitni á að vita hvernig farið er að því að skjóta upp hefðbundnum rakettum þegar ekki er hægt að stinga þeim í næsta snjóskafl og kveikja í. Tumi kann auðvitað ráð við því.
- „Við erum með rör sem hægt er að stinga niður í jörðina,“ segir hann.
- „Annars er bara að finna sér sandfötu og glerflösku og skjóta upp úr því. Svo geturðu líka stungið rakettunni ofan í tertuna sem þú ert búinn að sprengja,“ bætir Tumi Snær við og ljóst að ýmsar leiðir eru færar þótt enginn sé snjóskaflinn.
Að lokum er vert að ítreka að fara þarf varlega með skotelda um áramótin og minnt er á að eftir hamaganginn og hávaðann er nauðsynlegt að hirða upp allt flugeldarusl. Ekki má setja flugeldaruslið með hefðbundnum heimilisúrgangi, heldur þarf að koma því í sérstaka gáma sem settir verða upp við verslanir Bónus í Naustahverfi og Langholti, sem og á grenndarstöð norðan við Ráðhúsið í Geislagötu.