Fara í efni
Íþróttir

Fjórar úr KA/Þór í liði fyrri hlutans

Fjórar úr KA/Þór í liði fyrri hlutans

Fjórir leikmenn úr KA/Þór eru í úrvalsliði fyrri hluta Íslandsmótsins í handbolta kvenna, að mati sérfræðinga í Seinni bylgjunni, handboltaþættinum á Stöð 2 Sport.  Þetta var tilkynnt í síðasta þætti, og kemur varla neinum á óvart því fjórmenningarnir hafa leikið sérlega vel, auk þess sem lið KA/Þórs er á toppi deildarinnar ásamt Fram. Stelpurnar okkar hafa unnið fimm leiki, gert tvö jafntefli og tapað einum.

Leikmenn Akureyrarliðsins eru Matea Lonac, markvörður, Ásdís Guðmundsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Auk þess var Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, valinn þjálfari fyrri hlutans og skyldi heldur engan undra.

Aðrar í úrvalsliðinu eru Lovísa Thompson úr Val, Sunna Jónsdóttir úr ÍBV og HK-ingurinn Sigríður Hauksdóttir.

Þess má geta að næsti leikur KA/Þórs í Olís deildinni er á morgun gegn Stjörnunni á útivelli. Flautað verður til leiks klukkan 16.00. Leiknum verður streymt á vefnum, á www.210tv.is.