Fara í efni
Menning

Fjórar einkasýningar á 30 ára afmælinu

Safnasafnið á Svalbarðseyri hefur verið opnað eftir vetrarlokun eins og fram kom í frétt Akureyri.net fyrr í dag. Skipt er um sýningar á hverju ári og jafnan kennir margra grasa á þettu magnaða safni. Fjórar áhugaverðar einkasýningar eru á safninu á þessu ári, þegar 30 ára afmæli safnsins er fagnað. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á þessum fjórum sýningum. Um þær segir í kynningu frá safninu:

Aldarminning

Rithöfundurinn Thor Vilhjálmsson (1925–2011) teiknaði án afláts hvar sem hann var staddur og má segja að afraksturinn sé ein viðamikil rannsókn. Í hluta  þeirra tæplega sex þúsund teikninga sem safnið á eftir hann eru dregin upp andlit karlmanna í blek- og blýantsteikningum með breiðum og grönnum strokum til skiptis, dökkum og ljósum formum, fastmótaðri skyggingu eða léttri sveiflu. Þær eru gerðar af miklu öryggi á árunum 1950–1954, og byggja á ríkri persónulegri tilfinningu, reynslu og skilningi hans á eðli og tilvist mannsins.

Römm er sú taug

Þorbjörg Halldórsdóttir ((1875–1979) fæddist á Strandarhjáleigu í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu og kenndi sig alltaf við þann stað. Hún var lengst af vinnukona og vann almenn bústörf, en um sjötugt þegar heimilisannirnar voru að baki tók hún að sauma út myndir. Mynstrin skapaði hún sjálf og með breytilegum útsaumssporum og litum öðluðust myndverkin dýpt og mismunandi áferðir. Útsaumsverk Þorbjargar eru fjölmörg og má telja að þau hafi verið nýmæli í listsköpun á Íslandi. Strandarhjáleiga var algengasta myndefnið en hún gerði ekki færri en sex verk sem sýna húsakynni hennar kæra æskuheimilis. Í ár eru 150 ár liðin frá fæðingu hennar.

Hólsfjöll og Herðubreið

Brynhildur Þorgeirsdóttir hefur um árabil steypt Herðubreið í litað gler, upphaflega í hvítleitum tón sem gefur fjallinu efnislegt gagnsæi og dýpt og dulúð. Hún jók svo frumlitunum við til að fá meiri fjölbreytni. Stefán Valgeir Jónsson – Stórval – frá Möðrudal á Fjöllum (1908–1994) hafði mikið dálæti á  Herðubreið og bregður henni fyrir í verkum hans ásamt Hólsfjöllum sem hér eru meira áberandi. Hann notaði öflug form fjallanna til að tjá fjölbreytileg tilbrigði birtu og skugga. Stórval málaði Herðubreið og Hólsfjöll endurtekið í sterkum litum á breiðum skala til að móta og endurlifa fjallasýn bernsku sinnar.


Hallir ímyndanna

Árið 1962 þegar Ísleifur Sesselíus Konráðsson (1889–1972) var kominn yfir sjötugt opnuðust hjá honum flóðgáttir sköpunarkraftsins og næsta áratug hélt hann átta  einkasýningar þar sem hann sýndi yfir 200 málverk. Það eru nú komin yfir 50 ár síðan verkum Ísleifs var fyrst safnað saman og þau sýnd heildstætt eins og gert er á þessari sýningu. Verk hans tjá afdráttarlausa einlægni málarans gagnvart viðfangsefninu – hvort sem um ræðir þekkta staði eða sýnir listamannsins úr skáldaðri fortíð þar sem myndbirtast heiðavötn, klettamyndanir, skálar, seglskútur og hallir.