Fara í efni
Fréttir

Fjölskylduþjónustan fær styrk frá ráðuneyti

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarbær hefur hlotið styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir verkefnið Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra. Styrkurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum. 

Verkefnið sem um ræðir „miðar að því að efla farsæld barna og fjölskyldna með snemmtækri, samþættri og fjölskyldumiðaðri þjónustu sem byggir á norskri fyrirmynd,“ að því er fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar. Verkefnið felst í tímabundnu stuðningskerfi sem tekur á fjölbreyttum áskorunum í lífi barna og felur meðal annars í sér barnasmiðjur, fjölskyldumeðferð og eftirfylgni í allt að 12 mánuði. Fjölskylduþjónusta Norðurlands eystra er hugsuð sem tilraunaverkefni til 24ra mánaða, en að því loknu verður árangur metinn og farið í átak til að tryggja sjálfbæra innleiðingu á úrræðinu innan almennrar starfsemi sveitarfélaga á svæðinu, ef niðurstöður verða jákvæðar.

„Það hefur lengi verið sagt að best sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Með þessu verkefni, sem velferðarsvið Akureyrarbæjar leiðir í samstarfi við fræðslu- og lýðheilsusvið bæjarins auk tíu annarra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, er stigið mikilvægt skref í þá átt,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir, forstöðumaður félagsþjónustunnar hjá Akureyrarbæ, í frétt Akureyrarbæjar. 

Verkefnið byggir á reynslu af farsældarþjónustu á 1. og 2. stigi í samræmi við lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. „Í þeirri vinnu hefur komið skýrt í ljós að til að ná markmiðum laganna og auka líkur á árangri þarf úrræði sem tekur betur utan um fjölskylduna í heild. Markmiðið er að grípa snemma inn í og byggja upp styrk og seiglu innan fjölskyldunnar svo hún geti staðið sterkari til framtíðar. Með því að styðja fjölskyldur snemma er ekki aðeins dregið úr líkum á erfiðleikum síðar, heldur er einnig verið að fjárfesta í farsæld og velferð til framtíðar,“ segir Halldóra Kristín.