Fréttir
Fjölmenni krafðist aðgerða – MYNDIR
07.09.2025 kl. 14:30

Myndir: Skapti Hallgrímsson
Talið er að hátt í 500 manns hafi mætt á fund sem haldinn var á Ráðhústorgi í gær undir yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði, vegna hörmulegs ástands í Palestínu. Þess var krafist að gripið yrði til aðgerða til stöðva hryllinginn. Samskonar fundir fóru fram í Reykjavík, Stykkishólmi, á Ísafirði, Húsavík og Egilsstöðum og alls mætti fjöldi fólks.
„Við höfnum þjóðarmorði og brotum Ísraels á alþjóðalögum. Tími yfirlýsinga og undanbragða er liðinn, tími aðgerða er runninn upp!“ sagði í kynningu á viðburðinum. Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur flutti á ávarp á fundinum en hún hefur í meira en eitt ár verið í sambandi við fjölskyldur á Gasa og bæði veitt þeim sálgæslu í gegnum myndsímtöl og fjárhagslega aðstoð. Kristín stofnaði í sumar almannaheillafélagið Vonarbrú, hjálpin færðist þar með í formlegri farveg.

Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur sem stutt hefur fjölskyldur á Gasa síðustu mánuði, bæði andlega og fjárhagslega.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, var fundarstjóri á Ráðhústorgi. Til máls tók Katla Ósk Káradóttir, fulltrúi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, tónlistarmaðurinn Svavar Knútur spilaði og söng og lesin voru tvö áhrifamikil bréf sem borist höfðu frá fjölskyldum á Gasa; leikkonan Edda Björgvinsdóttir las fyrra bréfið og Hlynur Hallsson myndlistarmaður það síðara.
Vert er að geta þess að í gær var annar viðburður á Akureyri vegna hörmunganna fyrir botni Miðjarhafs: Í Glerárkirkju voru lesin upp nöfn allra þeirra 18.500 barna sem hafa verið drepin í Palestínu og Ísrael „í þeim manngerðu hamförum sem gengið hafa yfir Palestínu og Ísrael frá 7. október 2023,“ eins og sagði í tilkynningu frá kirkjunni. „Við viljum nefna nöfn þeirra og aldur í heilögu rými, gefa stund til að minnast og meðtaka að þetta eru saklausar og elskaðar manneskjur en ekki tölur á blaði. Manneskjur sem við megum aldrei gleyma!“
Prestarnir, Sindri Geir Óskarsson og Hildur Björk Hörpudóttir, lásu ásamt fjölda sjálfboðaliða og tók það alls tæpar 11 klukkustundir.
Edda Björgvinsdóttir steig á svið og las bréf frá fjölskyldu á Gasa.
Hlynur Hallsson les síðara bréfið frá fjölskyldu á Gasa.
Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur spilaði og söng.