Fjölga hjólum – tilraun með negld dekk í vetur
Rafskútum frá Hopp mun fjölga á Akureyri á þessu ári í takt við stækkun bæjarins. Þá verður í fyrsta sinn gerð tilraun með negld rafskútudekk nú í vetur, sem gæti markað tímamót í notkun rafskúta allt árið um kring.
Að sögn Ragnars Heiðars Sigtryggssonar, sem er að taka yfir Hopp á Akureyri, eru nú um 205 rafskútur í bænum en stefnt er að því að fjölga þeim í allt að 300 á árinu. „Bærinn er að stækka og ný hverfi að bætast við. Til þess að fólk geti treyst á þjónustuna þarf alltaf að vera hjól innan ákveðins radíuss,“ segir Ragnar, sem tekur formlega við rekstri Hopp Akureyri þann 1. apríl en er þó þegar farinn að skipuleggja sumarið.
Rafskútur í vetrarbúning
Í samstarfi við núverandi rekstraraðila segir Ragnar að til standi að setja um 50 negld rafskútuhjól á götur Akureyrar fyrir febrúarbyrjun. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem notast verður við hjól með sérstökum naglahlífum sem dekkin eru klædd í, sambærilegum þeim sem hafa verið notuð í Reykjavík síðustu tvo vetur. „Reynslan af notkun slíkra hjóla í Reykjavík er mjög góð, bæði hvað varðar grip og notkun. Það er mikil eftirspurn eftir rafskútum yfir veturinn og margir eru farnir að treysta þessum ferðamáta,“ segir Ragnar.
Ef tilraunin gengur vel gæti þjónusta Hopp þróast í þá átt að boðið verði upp á rafskútur á Akureyri allan ársins hring. Í byrjun nóvember voru allar rafskútur Hopp fjarðlægðar af götum Akureyrar og starfsemin fór í vetrarfrí. Hjólin koma ekki aftur á göturnar fyrr en í apríl, fyrir utan þessar áðurnefndu tilraunarafskútur á nöglunum. Margir sakna hins vegar hjólanna enda eru þau að sögn Ragnars orðin mikilvæg í daglegum samgöngum, sérstaklega hjá ungu fólki og framhaldsskólanemum. Þá hafi eldri kynslóðir í auknum mæli verið að prófa sig áfram með þennan ferðamáta. „Þetta snýst oft bara um að þora að prófa. Þegar fólk prófar þetta þá sér það fljótt hversu þægilegur fararmáti þetta er.“

205 Hopp rafskútur eru á götum Akureyrar frá vori til hausts en nýr eigandi segist vilja fjölga þeim upp í 300 á árinu. Þá verður gerð tilraun í vetur með negldar rafskútur.
Hopp reiðhjólin áfram fáanleg í sumar
Auk rafskútanna eru 10 Hopp rafreiðhjól á Akureyri á vegum Hopp. Þau eru aðallega miðuð við ferðamenn og eru staðsett við menningarhúsið Hof. Eins og fyrirkomulagið er núna eru rafreiðhjólin tekin og þeim skilað á sama stað, en Ragnar segir að það sé í skoðun hvort ástæða sé til að fjölga hjólunum og jafnvel bjóða upp á fleiri skilastaði, eins og t.d. við Skógarböðin.
Ragnar, sem er fæddur og uppalinn Akureyringur, er einnig eigandi Hopp á Akranesi og Ísafirði, svo hann er með ágætis reynslu af rekstri Hopp. Segist hann vera með gott teymi fyrir norðan en sex fjölskyldumeðlimir munu standa að rekstrinum á Akureyri og framkvæmdastjórinn þar verður Matthías Már Stefánsson. „Við viljum byggja þetta upp hægt og vel, þannig að þjónustan sé snyrtileg, örugg og traust fyrir bæjarbúa,“ segir Ragnar spenntur.