Fara í efni
Íþróttir

Fjöldi heimaleikja fram undan í vikunni

Það er ýmislegt á dagskrá vikunnar hjá íþróttaliðum Akureyrar. Evrópuleikur ungliða á Greifavellinum, handboltaliðin þrjú með heimaleiki, hokkíleikir í Skautahöllinni og heimsókn knattspyrnukvenna austur á Reyðarfjörð. Eldra körfuboltafólk sýnir svo listir sínar á Pollamóti um komandi helgi og á sunnudag getur KA tryggt endanlega sæti sitt í efstu deild karla í knattspyrnu.

MIÐVIKUDAGUR 1. OKTÓBER - fótbolti

U20 lið KA (2. flokkur) varð Íslandsmeistari í fyrra og tekur því þátt í Evrópukeppni í ár, UEFA Youth Leauge. Mótherji KA í fyrstu umferðinni er lettneska liðið FS Jelgava. Liðin hafa nú þegar mæst í Lettlandi og gerðu 2-2 jafntefli. Sigur á miðvikudag þýðir því sæti í næstu umferð keppninnar. 

  • UEFA Youth League
    Greifavöllurinn kl. 14
    KA - FS Jelgava

Frítt er á leikinn í boði nokkurra stuðningsfyrirtækja félagsins, sem hvetur þó stuðningsmenn til að sækja sér frímiða á leikinn í Stubbi (miða-appinu) tímanlega vegna takmarkaðs fjölda miða. 

- - -

Uppfært: Keppni í Unbroken-deild karla í blaki heldur áfram í kvöld með grannaslag í KA-heimilinu, þegar KA tekur á móti Völsungi. Þessar upplýsingar var því miður ekki að finna á vef Blaksambandsins þegar þessi samantekt yfir íþróttavikuna var fyrst sett saman.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 20:15
    KA - Völsungur

- - -

FIMMTUDAGUR 2. OKTÓBER - handbolti, íshokkí

Að loknum fjórum umferðum er KA með tvo sigra í Olísdeild karla í handknattleik, hafa unnið Selfoss og HK á útivöllum. Nú er komið að öðrum heimaleik liðsins og allt eins líklegt að þar komi fyrsti heimasigurinn, þegar ÍR-ingar mæta norður.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 18:15
    KA - ÍR

KA vann báðar viðureignirnar við ÍR í Olísdeildinni í fyrravetur, 28-24 á heimavelli og 39-34 á útivelli. ÍR-ingar hafa enn sem komið er aðeins hlotið eitt stig í Olísdeildinni, gerðu jafntefli við Selfoss. KA vann HK á útivelli í síðustu umferð, en ÍR tapaði með einu marki heima fyrir Aftureldingu. 

- - -

Þórsarar hafa unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í Olísdeildinni, unnu ÍR í fyrstu umferðinni, en hafa síðan tapað fyrir Fram, Val og ÍBV. Þeir fengu liðsstyrk í Kára Kristjáni Kristjánssyni fyrir síðasta leik, en það dugði þeim þó ekki þegar þeir sóttu sveitunga Kára Kristjáns heim til Eyja. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:00
    Þór - Stjarnan

Stjarnan er í 5. sæti deildarinnar að loknum fjórum umferðum með fjögur stig, hafa unnið tvo og tapað tveimur leikjum, en Þórsarar sitja í 10. sætinu með tvö stig.

- - -

Enn er ekki komið að alvörunni í Toppdeild karla í íshokkí, nokkrir leikir eftir í forkeppninni sem gefur þó hvorki liðum né leikmönnum stig þegar áfram verður haldið, eins og áður hefur komið fram í umfjöllun Akureyri.net.

Það má þó eflaust búast við skemmtilegum leik í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið næsta þegar SA-liðin mætast innbyrðis, Jötnar, U22 lið SA, skemmtu áhorfendum í leik sínum gegn meistaraflokksliði Fjölnis og unnu nokkuð örugglega. SA vann í framlengingu í fyrsta leik sínum gegn Fjölni og vann síðan auðveldan sigur á Húnum, U22 liði Fjölnis, síðastliðinn sunnudag.

  • Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
    Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
    Jötnar - SA

Meistaraflokkur SA býr sig nú ekki aðeins undir keppni í Toppdeildinni heldur er liðið á leið til Litháen í októbermánuði til þátttöku í Evrópuriðli, Continental Cup, þar sem liðið fær væntanlega erfiða og verðuga andstæðinga. Meira um það síðar.

FÖSTUDAGUR 3. OG LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER - körfubolti

Pollamót Þórs í körfubolta, þar sem eldri leikmenn reyna með sér, hefur stækkað með hverju árinu undanfarin ár og er metþátttaka í mótinu sem fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri um komandi helgi. Spilað er á föstudegi og laugardegi, en mótinu lýkur með lokahófi í Höllinni á laugardagskvöld.

LAUGARDAGUR 4. OKTÓBER - fótbolti, íshokkí, handbolti

Þór/KA spilar næstsíðasta leik sinn í Bestu deildinni á þessu tímabili á laugardag þegar liðið mætir FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. FHL er nú þegar fallið niður í Lengjudeildina, en Þór/KA er í 7. sætinu og hefur nú þegar tryggt Bestudeildarsætið, gerði það með sigri á Tindastóli í fyrsta leik í neðri hlutanum. FHL tapaði á útivelli fyrir Fram í fyrsta leiknum, sem þýddi að Fram hefur tryggt sér sæti í Bestu deildinni áfram, en Tindastóll fellur í Lengjudeildina með FHL.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
    Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði kl. 15
    FHL - Þór/KA

Þór/KA vann báða leikina gegn FHL í deildinni í sumar, fyrir tvískiptingu. Þór/KA vann 5-2 í Fjarðabyggðarhöllinni snemma í maí og svo 4-0 í Boganum í ágústmánuði. 

- - -

Kvennalið SA hefur unnið báða leiki sína til þessa í Toppdeildinni í íshokkí, fyrst 5-0 útisigur á Fjölni og svo 3-1 heimasigur gegn liði SR. Nú er komið að heimaleik gegn Fjölni, sem er án stiga í deildinni til þessa.

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
    SA - Fjölnir

- - -

KA/Þór hefur farið frábærlega af stað í Olísdeild kvenna í handknattleik í haust, hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína, gegn Selfossi, ÍBV og Stjörnunni, og situr í toppsætinu með sex stig, eina liðið sem ekki hefur tapað leik í fyrstu þremur umferðunum. Nú er að því að taka á móti liði Hauka, sem hefur þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 18
    KA/Þór - Haukar

 

SUNNUDAGUR 5. OKTÓBER - fótbolti

Baráttan við að forðast fall úr Bestu deild karla í knattspyrnu harðnar með hverjum leiknum. Neðstu liðin hafa verið að ná sér í stig og tölfræðilega séð er ekkert liðanna sex í neðri hlutanum enn öruggt um áframhaldandi sæti í deildinni. ÍBV og KA standa þó best að vígi þegar þremur umferðum er ólokið.

KA tekur á móti Vestra í þriðja leik í neðri hluta Bestu deildarinnar á sunnudag. Sigur í þeim leik myndi tryggja KA áframhaldandi veru í efstu deild.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
    Greifavöllurinn kl. 14
    KA - Vestri

Ísfirðingum hefur gengið afleitlega eftir að liðið varð bikarmeistari með sigri á Val 22. ágúst. Liðið náði sér í eitt stig í þremur umferðum frá bikarúrslitaleiknum fram að tvískiptingu Bestu deildarinnar og hefur nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í neðri hlutanum. Vestramenn þurfa því að snúa genginu við því annars gæti fall úr deildinni hreinlega blasað við.