Fjallafura „sandblásin“ vegna tíðarfars í vetur

Tuskulegar fjallafurur við eina vinsælustu gönguleið Akureyrar, frá hitaveituskúr Norðurorku við Súluveg og upp að Fálkafelli, hafa vakið athygli vegfarenda. Trén eru eins og þau séu sandblásin og barr þeirra brúnt og skrælnað.
„Þetta eru væntanlega bara veðurskemmdir, afleiðingar af snjóléttum vetri og köldum suðvestanáttum,“ segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá Landi og skógi þegar Akureyri.net leitaði álits hjá honum á málinu. Telur hann að barrið hafi kalið af því að trén fóru ekki á kaf í snjó og kaldar suðvestanáttir voru tíðar á nýafstöðnum vetri.
Ef brumin eru lifandi ná tréin sér aftur en verða tuskuleg í sumar og kannski næsta sumar líka.
Sandblásin tré eftir veturinn
„Gera má ráð fyrir því að snjófjúk eða skari hafi fokið á trén líka þannig að þau eru líkt og sandblásin eftir veturinn. Þetta eru með öðrum orðum kalskemmdir á barri en ef brumin eru lifandi ná trén sér aftur. Líklega verða þau hálfdrusluleg í sumar og kannski næsta sumar líka en svo ætti að verða komið á þau nýtt barr og þetta skrælnaða dottið af,“ segir Pétur og upplýsir um leið að stafafura, sem er mikið notuð í skógrækt, verði stundum fyrir sambærilegum skemmdum á veturna. „Skemmdirnar geta orðið svo miklar að brumin drepast og heilu greinarnar, jafnvel heil tré. Yfirleitt er það þó aðallega barrið sem skemmist. Barr á sígrænum lauftrjám er líkt og hárið á okkur. Hver barrnál lifir bara fáein ár en fellur svo af og ný nál vex í staðinn.“