Fara í efni
Fréttir

Fimmta flugvélin í flota Norlandair

Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair, við nýju vélina í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson…
Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair, við nýju vélina í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fimmta flugvélin bættist í gær í flota Norlandair, þegar níu farþega Beechcraft King Air B200 lenti á Akureyrarflugvelli. Fyrir átti félagið samskonar vél og þá sem kom í gær, og þrjár 19 farþega vélar af gerðinni DHC6 Twin Otter.

Nýja vélin verður mikið notuð í ferðir milli Íslands og Grænlands, að sögn Friðriks Adolfssonar, framkvæmdastjóra Norlandair en 80% af starfsemi félagsins er á Grænlandi. Skammt er síðan Norlandair gerði 10 ára samning við grænlensku heimastjórnina um þjónustu milli Constable Point (Nerlerit Inaat) í Scoresbysundi og Íslands.

„Þessi vél hentar mjög vel á stuttar flugbrautir eins og á Constable Point, en einnig til dæmis á Bíldudal og Vopnafirði, þar sem flugbrautirnar eru líka stuttar,“ segir Friðrik. Þess má geta að vélin er samskonar og þær sem Mýflug notar í sjúkraflug.

Vélina keypti Norlandair af bandaríska fyrirtækinu Polaris, sem m.a. er þekkt fyrir að framleiða vélsleða. „Vegna Covid komu bandarískir ferjuflugmenn með vélina frá Bandaríkjunum, annars hefðum við sent menn til að ná í hana,“ sagði Friðrik í gær.

Auk mikillar starfsemi á Grænlandi heldur Norlandair úti áætlunarflugi milli Reykjavíkur og annars vegar Bíldudals og hins vegar Gjögurs, auk áætlunarflugs frá Akureyri til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar.

Vélin færð inn í flugskýli eftir komuna frá Bandaríkjunum síðdegis í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.