Fimm mörk, sigur og hreint mark hjá SA
SA vann Fjölni örugglega í Toppdeild kvenna í íshokkí í gærkvöld, 5-0, og er enn ósigrað á toppi deildarinnar. Shawlee Gaudreault hélt marki SA hreinu í leiknum. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö mörk og Eyrún Garðarsdóttir átti þrjár stoðsendingar.
SA hóf leikinn af krafti og sótti ákaft að marki gestanna, en áður en fyrsta markið kom hafði Sigrún Agata Árnadóttir komist í dauðafæri hinum megin, ein á móti Shawlee Gaudreault í marki SA en kom pökknum ekki í netið.
Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir náði forystunni fyrir SA eftir rúmar þrjár og hálfa mínútu. SA var þá í sókn, einni fleiri á svellinu eftir refsingu á Fjölni. Aðalheiður Anna átti þá skot framhjá markinu og pökkurinn rann meðfram battanum alveg inn í varnarsvæði SA þar sem hún kom sjálf og sótti pökkinn, skautaði aftur fyrir markið til að stilla upp í sókn, síðan upp allan hægri kantinn, framhjá þremur varnarmönnum Fjölnis og lét loks vaða á markið og skoraði. Glæsilega gert.

Shawlee Gaudreault markvörður SA varði öll 18 skot leikmanna Fjölnis í gærkvöld. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Annað markið kom rúmum tveimur mínútum síðar. Magdalena Sulova brunaði þá fram svellið með pökkinn og átti flotta sendingu inn að markinu á Silvíu Rán Björgvinsdóttur. Hún náði skemmtilegri hreyfingu, eiginlega með bakið í markið, og náði að plata Karítas í marki Fjölnis og renna pökknum síðan í markið af stuttu færi.
Eins og í fyrstu lotunni kom þriðja mark leiksins snemma í annarri lotu. Það kom eftir snögga sókn þar sem Kolbrún Björnsdóttir kom pökknum inn í svæði hægra megin, Herborg Rut Geirsdóttir var fyrst til að ná í pökkinn, sendi fyrir markið þar sem Guðrún Ásta Valentine var mætt og náði að ýta pökknum í markið í annarri tilraun eftir að Karitas varði fyrra skotið af stuttu færi.
Þriðja lotan var tæplega hálfnuð þegar Silvía Rán skoraði fjórða mark SA og sitt annað mark í leiknum. Eins og í fyrsta markinu voru SA-konur einni fleiri á svellinu og sóttu hart að marki Fjölnis. Sólrún Assa Arnardóttir átti skot að marki sem fór framhjá, en pökkurinn hrökk af battanum beint fyrir Silvíu Rán vinstra megin og hún átti ekki í vandræðum með að koma honum í markið.
Fimmta mark SA kom svo þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka. Kolbrún Björnsdóttir var þá í baráttu hægra megin við markið og hafði betur, sendi út á Sólrúnu Össu sem var ein og óvölduð fyrir framan markið og skoraði af öryggi.
Öruggur sigur í höfn þó Fjölniskonur hafi vissulega fengið sín færi, en þau nýttust bara ekki. Shawlee varði þau skot sem hittu á markið og inn fór pökkurinn ekki hjá gestunum.
- SA - Fjölnir 5-0 (2-0, 1-0, 2-0)
SA
Mörk/stoðsendingar: Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1, Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir 1/0, Guðrún Ásta Valentine 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 1/0, Eyrún Garðarsdóttir 0/3, Kolbrún Björnsdóttir 0/2, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1, Herborg Rut Geirsdóttir 0/1, Magdalena Sulova 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 18 af 18 (100%).
Refsimínútur: 8.
Fjölnir
Varin skot: Karítas Halldórsdóttir 23 af 28 (82,14%).
Refsimínútur: 6.
SA er í efsta sæti Toppdeildarinnar með 14 stig, hefur unnið alla fimm leiki sína til þessa, þar af einn í framlengingu. SR hefur tíu stig og Fjölnir er án stiga. Leikmenn SA raða sér líka í efstu sætin yfir fjölda marka og stoðsendinga og fer Silvía Rán þar fremst í flokki með fjögur mörk og sjö stoðsendingar í fimm leikjum.
Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.
Í lok upptökunnar eru mörk og nokkur færi endursýnd.