Fimm mánaða göngugata í vetrarfrí

Eins og vegfarendur í miðbænum hafa eflaust orðið varir við hefur göngugatan nú aftur verið opnuð fyrir akstri vélknúinna ökutækja, eins og reyndar til stóð núna um mánaðamótin. Bann við umferð vélknúinna ökutækja, með ákveðnum undantekningum, sem bæjarstjórn hafði samþykkt gilti nefnlega aðeins frá 1. maí til og með 30. september.
Það er ekki laust við að þeim sem þetta ritar hafi brugðið aðeins á föstudagsmorgun þegar hann átti erindi í miðbæinn enda hafði hann ekki áttað sig á því að göngugatan er ekki lengur bara göngugata. Opnun hennar er ekki aðeins mikil breyting á umferðinni um götuna heldur einnig enn ein áminningin um að sumarið er farið og haustið tekið við, mánuðurinn sem inniheldur fyrsta vetrardag er hafinn og þar með breytist umferðin um göngugötuna.
Eins og áður eru eflaust skiptar skoðanir um þetta mál. Einhverjir fyrirtækjaeigendur í miðbænum fagna og segja loksins, en öðrum finnst að lokunin mætti vara allt árið. Um það verða Akureyringar aldrei allir sammála.
Göngugata undanfarinna fimm mánaða aftur orðin að akstursgötu frá og með 1. október, eins og til stóð. Mynd: Haraldur Ingólfsson.