Fara í efni
Mannlíf

FF Múrbrjótar unnu FC Sækó á Laugardalsvelli

Lið FF Múrbrjóta eftir frækinn sigur á FC Sækó á Laugardalsvelli. Ljósmyndir: Árni Már Árnason
Lið FF Múrbrjóta eftir frækinn sigur á FC Sækó á Laugardalsvelli. Ljósmyndir: Árni Már Árnason

Á þriðjudaginn fór fram óvenjulegur stórleikur í knattspyrnu á Laugardalsvelli milli heimaliðsins FC Sækó og Akureyrarliðsins FF Múrbrjóta. Bæði þessi lið hafa það að markmiði að stuðla að aukinni virkni og hreyfingu fólks með geðraskanir en um leið að draga úr fordómum og að einstaklingarnir séu sýnilegir í samfélaginu. Einnig leggja bæði félög á það áherslu að rjúfa félagslega einangrun, að allir séu jafnir og hafi gaman af því að stunda fótbolta.

Leikurinn var hins besta skemmtun að sögn viðstaddra, bæði lið stóðu sig vel, sýndu hörkubaráttu og ekkert var gefið eftir. En svo fór að Múrbrjótar höfðu sigur í leiknum þar sem liðið skoraði 7 mörk en fékk aðeins á sig 4 mörk.

Það sem stóð þó upp úr var skemmtunin við það að fá að spila á þjóðarleikvangi okkar Íslendinga og ekki síst vinátta sem myndaðist á milli leikmanna.

Árni Már Árnason var í liði FF Múrbrjóta en var líka með myndavélina á lofti eins og svo oft áður.