Fara í efni
Íþróttir

Fetar Rut í fótspor eiginmannsins?

Handboltahjónin Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir ásamt syninum Gústafi áður en pabbinn h…
Handboltahjónin Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir ásamt syninum Gústafi áður en pabbinn hélt suður í gær til að spila í undanúrslitunum. Rut verður í eldlínunni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór leikur við Fram í undanúrslitum Coca-Cola bikarkeppninnar í handbolta í dag. KA-menn komust í gær í úrslitaleik karlakeppninnar með sigri á Selfyssingum í hörkuleik. Ólafur Gústafsson er leikmaður og eiginkona hans, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, verður í eldlínunni með KA/Þór í kvöld. Spennandi verður að sjá hvort þau hjón leika bæði til úrslita á laugardaginn!

KA/Þór og Fram hafa mæst fjórum sinnum á þessu keppnistímabili – þótt einn leikjanna hafi í raun talist til tímabilsins þar á undan, úrslitaleikur bikarkeppninnar. Framarar hafa sigrað þrisvar í vetur en Stelpurnar okkar einu sinni. 

  • Meistarakeppni HSÍ, KA/Þór - Fram 21:28
  • Úrslitaleikur bikarkeppninnar: KA/Þór - Fram 27:20
  • Íslandsmótið: Fram - KA/Þór 27:25
  • Íslandsmótið: KA/Þór - Fram 20:21

„Við höfum tapað þrisvar fyrir Frömurum í vetur þannig að kominn er tími til að vinnum þær. Við ætlum að gera það í kvöld,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net. Viðtal við Andra verður birt síðdegis.

Leikur KA/Þórs og Fram hefst klukkan 18.00 í dag og verður í beinni útsendingu á RUV 2.