Fara í efni
Fréttir

Fer í leyfi frá Alþingi og í áfengismeðferð

Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, greindi frá því á Facebook síðu sinni í morgun að hann hefði tekið sér leyfi frá þingstörfum og væri á leið í áfengismeðferð á Vogi.
 
„Seinasta haust horfðist ég í fyrsta skiptið í augu við það að ég og áfengi ættum ekki samleið,“ skrifar Ingvar. „Ég sá að ég ætti við drykkjuvanda og stríða og þyrfti að hætta. Ég tók mikilvæg en á köflum erfið skref í rétta átt og tókst nokkuð vel að snúa blaðinu við þó ég segi sjálfur frá. Svo skall á með þingkosningum og ég var kjörinn þar inn, sem ég hef enga trú á að hefði getað gerst hefði ég ekki orðið edrú fyrr um árið.“
 
Hann segir síðan: „Því miður hefur orðið bakslag í þessum efnum. Ég missteig mig, og get engum um kennt nema sjálfum mér. Ég er miður mín gagnvart vinum mínum og fjölskyldu sem ég hef valdið vonbrigðum, sem og samstarfsfélögum á þinginu og í Viðreisn. Ég ætla mér að snúa blaðinu við svo ég geti staðið almennilega undir því sem ég lofaði kjósendum mínum að vera, öflugur fulltrúi á þingi.“
 
Ingvar segist í dag halda á sjúkrahúsið Vog og fari þar af leiðandi í leyfi frá þingstörfum. „Ég ætla að sigrast á þessum djöfli, svo mér geti liðið vel með sjálfan mig og lífið á ný.“
 
Heiða Ingimarsdóttir tekur sæti Ingvars á Alþingi.