Fara í efni
Menning

Fátt um tónleika en undramargt nýtt

Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir sendu nýverið frá sér plötuna Þráðinn hvíta með fjölmörgum splunkunýjum íslenskum sönglögum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Það er fátt um tónleika þessar vikurnar. Hof og Græni hatturinn hafa þurft að slá öllu á frest um óákveðinn tíma vegna sóttvarnarreglna. Fólk hefur því svalað tónlistarþorsta sínum með því að hlusta á tónlistarveitur á borð við Spotify og Youtube og rifja jafnframt upp það sem er í geisladiskasafninu og jafnvel dusta rykið af plötuspilurunum.

En það stöðvar fátt tónlistarfólkið sjálft, þá sem skapa tónlist eða fást við annarra sköpunarverk. Og enda þótt tæknin og tíðarandinn hafi breytt aðferðunum sem við neytendurnir höfum beitt þá hafa farið þvílíkar bylgjur um útgáfuna að fáir hefðu ímyndað sér slíkt fyrir áratug eða svo. Vinylplötuútgáfan sem var farin út af borðinu er orðin tíska á ný, en geisladiskurinn, sem tók við af vinyl á sínum tíma, er á undanhaldi. Útgáfan hefur hins vegar að miklu leyti flust yfir á vefmiðla og þar er svo sannarlega fjör. Það má kannski segja að yngsta kynslóðin sé duglegust við að vinna til vinsælda á vefmiðlunum, Okkur sem eldri erum þykir oft vanta dálítið á menninguna þegar við getum ekki þuklað á útgefnu efni með fingrunum. Það er nú svo.

Hvanndalsbræður ásamt Hauki Tryggvasyni, vert á Græna hattinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson. Að ofan: Geisladiskur Birkis Blæs.

Ef litið er í kring hefur undramargt nýtt komið fram í dagsljósið á þessum veirutímum. Það er stutt síðan Hvanndalsbræður gáfu út nýja plötu, Hraundranga, og einn þeirra, Sumarliði Hvanndal sendi í haust frá sér diskinn Ljósastaura lífsins. Þórhildur Örvarsdóttir og Helga Kvam hafa verið mjög virkar í tónleikaheiminum en voru nú á dögunum að senda frá sér plötuna Þráðinn hvíta, með fjölmörgum splunkunýjum íslenskum sönglögum. Það er líka stutt síðan út kom platan Hugarró með Margréti Árnadóttur og Kristjáni Edelsetein og Birkir Blær sendi á dögunum frá sér Patient, sem er hvort tveggja á CD og vinyl (sjá mynd að albúminu að ofan). Og vegna þess að jólatónleikar verða trúlega fáir í ár ætla Norðurjósin að gefa út nýtt jólalag í nóvember.

Á næstu dögum og vikum er enn fremur að vænta nýs efnis á streymisveitunum, ekki síst frá unga fólkinu. Einar Óli gefur út fyrsta lagið af plötu sinni á Spotify 19. nóvember. Daginn eftir koma fjögur ný lög þar frá Stefáni Elí og Ari Orrson birtir fyrsta lagið af plötu sinni 27. nóvember. Þetta er að því leyti til einfaldara nú í seinni tíð að nú gefur tónlistarfólkið út eitt eða fleiri lög en ekki endilega tíu til tólf laga plötu, þótt sumir geri það enn.

Sverrir Páll