Fara í efni
Menning

Eyrarrokk – hátíð sem festa skal í sessi

Eyrarrokk – hátíð sem festa skal í sessi

Það verður örugglega rokkað af afli og örugglega líka rólað stíft á Eyrarrokki, tónlistarhátíð sem fer fram á Verkstæðinu á Oddeyri og stendur í tvö kvöld, 22. og 23. október. Þetta er upphafið að árlegum rokkhátíðum og á dagskránni má sjá að þar eru á ferð rokkarar á ólíkum aldri, sumir alkunnir og aðrir ögn minna þekktir, en augljóst er að það er ekki eingöngu svo að rokkið lifi heldur er það síungt og tifar.

Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson og Sumarliði Hvanndal sögðu frá því nýlega að hugmyndin að þessari tónlistarhátíð væri byggð á því að fyrir 30-40 árum hefðu hljómsveitir iðulega komið saman og spilað sér til yndis og ánægju og ekki með neinar gróðavonir, og stundum ekki með aðra áheyrendur en þá sem voru í hinum hljómsveitunum. Lengi hefði blundað hjá þeim löngun til að endurvekja þess konar tónleika, þar sem hljómsveitir fengju afmarkaðan tíma og kæmu hver á fætur annarri. Og nú væri að því komið.

Sex hljómsveitir verða á dagskrá hvort kvöld.

Föstudaginn 22. október verða þessar:

 • Leður
 • Chernobyl Jazz Club
 • Lost
 • Tvö dónaleg haust
 • Dr. Gunni
 • Fræbbblarnir

Laugardagskvöldið 23. október stíga á svið:

 • Biggi Maus
 • DDT Skordýraeitur
 • Dúkkulísurnar
 • Helgi & Hljóðfæraleikararnir
 • Langi Seli og Skuggarnir
 • Elín Helena

Tónleikarnir verða á Verkstæðinu, þar sem áður var Norðurslóðasetur og enn áður Oddvitinn og fyrir margt löngu bílaverkstæði BSA. Alls munu koma fram á þessum tvennum tónleikum 65 tónlistarmenn. Það er ærin ástæða til að leggja á sig talsvert ferðalag til að hitta fyrir á einum stað um eina helgi þetta litskrúðuga lið rokkara, sem hér verða á ferð.

Hægt er að kaupa miða á stakt kvöld eða bæði kvöldin saman. Miðsala fer fram á tix.is. Smellið hér til að kaupa miða.