Extra í Kaupangi verður að Kjörbúð
Verslunin Extra í Kaupangi er að hverfa á braut en Kjörbúðin tekur þess í stað yfir verslunarrýmið. Það er Samkaup sem á bæði Extra og Kjörbúðina.
Eins og Akureyri.net greindi frá þá lokaði Krambúðin við Byggðaveg fyrir um mánuði síðan. Sú verslun var einnig í eigu Samkaupa og fleiri breytingar eru í gangi hjá fyrirtækinu því þessa dagana er verið að breyta versluninni Extra í Kaupangi í Kjörbúð.
Fyrsta Kjörbúðin á Akureyri
Nú þegar rekur Samkaup 16 Kjörbúðir víðs vegar um landið en verslunin í Kaupangi verður sú fyrsta á Akureyri. Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hvers konar verslun Kjörbúðin er þá má finna eftirfarandi lýsingu á heimasíðunni kjorbudin.is :
„Við kappkostum að bjóða gott úrval, lágt verð og ferska vöru á hverjum stað. Kjörbúðin gerir viðskiptavinum sínum kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði. Vikulega bjóðum við upp á girnileg og fjölbreytt tilboð og spannar úrvalið allt frá þurrvöru yfir ferska vöru.“

Bless, bless Extra, halló Kjörbúð! Ný verslun þarf nýtt skilti.