Fara í efni
Íþróttir

Er eitthvað betra en bæjarslagur á næsta ári?

Sigur í höfn gegn Herði frá Ísafirði í Höllinni á dögunum. Frá vinstri: Jón Ólafur Þorsteinsson, Brynjar Hólm Grétarsson, Þormar Sigurðsson, Kristinn Björgúlfsson, Halldór Örn Tryggvason þjálfari og Sigurður Ringsted Sigurðsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór fær Fjölni í heimsókn í kvöld í úrslitaeinvígi liðanna um sæti í efstu deild karla í handbolta, Olís deildinni, næsta vetur. Leikurinn hefst í Íþróttahöllinni kl. 18.30.

Þetta er annar leikur liðanna í einvíginu, Fjölnir vann þann fyrsta eftir framlengingu á heimavelli sínum en sigra þarf í þremur leikjum til að komast upp í Olísdeildina.

Athygli hefur vakið að Kristinn Björgúlfsson, fyrrverandi þjálfari ÍR, hefur verið í þjálfarateymi Þórs í undanförnum leikjum. Hann hefur m.a. fengist við leikgreiningar undanfarið og kveðst hafa boðist til að aðstoða vin sinn, Halldór Örn Tryggvason, þjálfara Þórs. Í samtali við Akureyri.net hvetur Kristinn stuðningsmenn KA til að mæta í Höllina í kvöld og styðja Þórsara! Útskýrir það í stuttu máli svona: „Er eitthvað betra en bæjarslagur á næsta ári?“

Þórsarar fagna sigri í heimaleiknum gegn Herði á dögunum. 

Þór svipaður klúbbur og ÍR

„Þegar ÍR og Þór voru í Olísdeildinni á sínum tíma þá vorum við Dóri þjáningabræður í að falla um deild. Á tímabilinu urðum við fínir vinir og ræddum oft saman,“ segir Kristinn, spurður hvernig á því standi að hann hafi verið með Þórsurum upp á síðkastið.

„Þegar Dóri tók við liðinu aftur eftir að Stevce [Alusevski] var látinn fara þá bauð ég honum aðstoð, og á síðustu metrum deildarkeppninnar þá hringdi Dóri í mig og spurði hvort ég gæti aðstoðað. Ég var fljótur að segja já, af mörgun ástæðum. Þór er flottur klúbbur, svipaður og ÍR. Liðið byggt upp á uppöldum leikmönnum sem alltaf hafa þurft að leggja líf og sál í öll verkefni. Einnig lá fyrir að liðið myndi mæti Herði í úrslitakeppninni, eitthvað sem jók á áhugann á að vera með.“

Kristinn sinnir nú þjálfun barna hjá Haukum og í afreksskóla félagsins en „eftir að ég hætti með ÍR hef ég aðallega unnið í klippi- og greiningarvinnu fyrir bæði félög og landslið.“

Hvetur KA-menn til að mæta!

Kristinn er með ákveðin skilaboð til Akureyringa fyrir leikinn í dag: „Stuðningsfólk Þórs hefur verið hrikalega flott á þeim tíma sem ég hef verið með liðinu. Hópurinn sem kom í oddaleikinn á Ísafjörð var frábær. Við þurfum á öllum að halda í dag, og öllum með læti,“ segir hann og bætir svo við:

„Ég væri til í að sjá stuðningssveit KA manna í húsinu við hlið okkar manna, og styðja okkur. KA-menn geta með því verið að tryggja algjöra veislu á næsta ári. Er eitthvað betra en bæjarslagur á næsta ári? Gaman væri ef að menn kæmu til að undirbúa þá veislu. Ég er nokkuð viss um að allir á Akureyri séu til í það. Skora því á stuðningssveit KA að koma í Höllina í dag.“

Rígurinn mikilvægur

Höfuðborgarbúinn Kristinn segir skipta máli að bæði Akureyrarliðin verði í Olísdeildinni næsta vetur.

„Já, það skipir öllu máli. Rígur milli félaga er mikilvægur og allir vilja geta rifið kjaft og haft montréttinn hjá sér. Talað um að bærinn sé rauður eða gulur og allt sem því fylgir. Ég bý í Hafnarfirði og fyrir leiki Hauka og FH kemst ekkert annað að í bænum. Það hlýtur að vera eins á Akureyri. Þetta eru líka leikirnir sem allir fyrir sunnan fylgjast með. Alltaf troðfullt hús; hér mætti HSÍ líka reyna að leggja leikina upp þannig að bæjarslagur sé til dæmis síðasti leikur fyrir jól, páska eða annað til að búa til meiri stemningu.“

Hvernig meturðu möguleika Þórsliðsins á að komast upp?

„Nú erum við 1-0 undir, en ætlum okkur að jafna metin í dag. Fjölnisliðið er fullt af sprækum strákum og þeir eru mjög seigir. Spila alveg sinn bolta og eru ekki að breyta mikið út af vananum. Það gerir þá örugga á sínu og það er erfitt að brjóta þá. Við viljum að sjálfsögðu meina að við eigum meira erindi en þeir í efstu deild, en það er okkur að klára málið.“

Kristinn ítrekar að lokum það sem hann sagði áður: „Ég hvet alla þá sem ekki halda með Þór að sleppa litnum í dag, hugsa bara um veisluna sem þeir geta verið að búa til að ári.“