Enn saman til sjós 70 árum síðar!

Þessi gamla, skemmtilega mynd var tekin um borð í Snæfellinu, því mikla aflaskipi, árið 1954 eða 1955. Þarna hefur hásetinn Tryggvi Ingimarsson tekið Bjarna Bjarnason á háhest; sá litli var fimm eða sex ára og fór í veiðiferð með föður sínum, Bjarna Jóhannessyni skipstjóra.
Bjarni yngri varð svo sjálfur kunnur skipstjóri á Súlunni og hefur, eftir að hann settist í helgan stein stundum sinnt skipstjórahlutverkinu á eikarbátnum Húna II, til dæmis í síðustu viku þegar Hollvinir Húna fóru síðustu siglingu sumarsins í Eyjafirði með grunnskólabörn sem fræddust um lífríki sjávar. Þetta hefur sá hópur gert í sjálfboðavinnu í 20 ár. Aftur var Tryggvi Ingimarsson með í för, enda einn fjölmargra Hollvina eikarbátsins fallega – og þá var hin myndin tekin af þeim Bjarna. Segja má að þeir séu enn saman „til sjós“, 70 árum eftir að fyrri myndin var tekin!