Fara í efni
Menning

Endurkoma Todmobile; gömul vídeóperla fundin

Andrea Gylfadóttir í tvíþekjunni í myndbandinu eftirminnilega.

Skemmtilegt myndband þar sem hljómsveitin Todmobile leikur eitt sitt vinsælasta lag, Lommér að sjá, er komið í leitirnar eftir að hafa verið í glatkistunni í mörg ár.

Todmobile heldur tvenna tónleika innan tíðar, þá fyrri í Hörpu næsta laugardagskvöld og síðan í Hofi laugardagskvöldið 20. nóvember. Gaman er að geta endurfrumsýnt myndbandið af því tilefni – ekki síst vegna þess að allir stofnfélagarnir þrír stíga saman á svið á ný eftir langan tíma.

Andrea Gylfadóttir söngkona og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, gítarleikari og lagasmiður, eru búsett í höfuðstað Norðurlands; Andrea kennir við Tónlistarskólann á Akureyri en Þorvaldur er tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar.

Eyþór Arnalds, sellóleikari, borgarfulltrúi í Reykjavík, var þriðji stofnandi Todmobile og hann kemur nú fram í fyrsta skipti í rúman áratug með hljómsveitinni, á tónleikunum í Hörpu og Hofi. Þar verða fluttir vel valdir smellir frá ferli sveitarinnar, að sögn Þorvaldar Bjarna.

Todmobile var stofnuð 1988 og þegar Lommér að sjá var gefið út 1992 gerði Júlíus Kemp myndband þar sem Andrea virtist fljúga tvíþekju, sem var þó undir öruggri stjórn djarfhugans Björns Thoroddsen.

Myndbandið týndist og var sárt saknað, við gerð ýmissa heimildarþátta og safndiska, segir Þorvaldur Bjarni, en hópurinn gladdist mjög þegar starfsmaður RÚV fann það í hirslum stofnunarinnar.

Auk þremenninganna leika núverandi kjarnameðlimir Todmobile á tónleikunum, Eyþór Ingi Gunnlaugsson söngvari, Kjartan Valdemarsson hljómborðsleikari, trommuleikarinn Ólafur Hólm og Eiður Arnarsson bassaleikari.

Sjón er sögu ríkari!

Todmobile; Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Eyþór Arnalds og Andrea Gylfadóttir.