Fara í efni
Fréttir

Ellefta ísbúð Huppu opnuð á Akureyri

Gunnar Már Þráinsson, framkvæmdastjóri Huppu og Telma Österby Finnsdóttir, markaðs- og verkefnastjóri Huppu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Ísbúðin Huppa opnar við Glerárgötu 30 á morgun, miðvikudaginn 23. júlí kl. 12.00. Það eru hjónin Gunnar Már Þráinsson og Telma Österby Finnsdóttir sem reka ísbúðir Huppu, en búðin er sú ellefta sem þau opna, á jafn mörgum árum. Gunnar og Telma búa á Selfossi, og þar opnaði fyrsta búðin. Blaðamaður Akureyri.net tók hús á hjónunum þar sem þau voru að klára að gera og græja fyrir opnunina.

Við erum mjög spennt að taka þátt í þessari miklu ísbúðamenningu

„Það er allt að smella, öll leyfi komin í hús þannig að við hlökkum bara til þess að taka úr lás í hádeginu á morgun,“ segir Gunnar. Hugmyndin að ísbúðinni fæddist á Selfossi, en Telma segir að þar hafi ekki verið þessi ísbúðamenning sem sé vissulega fyrir hendi á Akureyri. „Ég myndi segja að við höfum búið ísstemninguna svolítið til á Selfossi, en við vitum vel að við erum að mæta á mikinn ísbúðastað núna!“

Eru sjálf á staðnum til að byrja með

„Við erum mjög spennt að taka þátt í þessari miklu ísbúðamenningu,“ segir Telma, og Gunnar tekur undir það. „Ég held að fólk verði ánægt með þessa viðbót en það mun kannski taka einhvern tíma fyrir Akureyringa að kynnast okkur og við að kynnast þeim. Við erum alltaf sjálf á staðnum fyrstu vikurnar, og verðum það. Svo erum við enn að leita að verslunarstjóra, en erum komin með góðan hóp af starfsfólki.“

 

Huppa lifir enn, þó að fyrirmynd hennar sé ekki lengur á meðal vor. Mynd: RH

Minning Huppu svífur yfir vötnum 

„Huppa var semsagt fræg mjólkurkýr frá Haga, sem er sveitabær í nágrenni Selfoss,“ segir Telma. „Við tókum okkur hana til fyrirmyndar og þannig fæddist hugmyndin að ísbúðinni. Huppa sjálf er reyndar ekki á lífi lengur, en við höldum minningu hennar á lífi!“

Fyrsta ísbúð Huppu var opnuð á Selfossi, eins og áður sagði, en næsta fékk draumastaðsetningu, að sögn Gunnars, í Álfheimum í Reykjavík. „Það er svona klassísk ísbúðarstaðsetning og þá fór boltinn virkilega að rúlla. Í kjölfarið á því opnuðum við á fleiri stöðum í bænum. Utan höfuðborgarsvæðisins rekum við eina búð í Reykjanesbæ, eina í Borgarnesi, Selfossi og frá og með morgundeginum á Akureyri líka,“ segir hann.

„Okkar aðal söluvara eru bragðarefirnir,“ segir Telma. „Svo er þessi klassíski ís, kúluís, shake með allskonar bragði og nammi í líka, svo erum við líka með kalda kaffidrykki, krap og ísrétti. Við hvetjum bara fólk til þess að koma og prófa, en á opnunardaginn verður 50% afsláttur af öllu.“

Ísbúðin Huppa á Facebook.