Fara í efni
Fréttir

Barnadeild SAk, Aflið og Hetjurnar fá gjafir

Frá vinstri: Hulda Hermannsdóttir, þjónustustjóri ELKO, Valdís Anna Jónsdóttir frá Hetjunum, Sigríður Elín Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur á barnadeild SAk, Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnastjóri hjá Aflinu og Haukur Hergeirsson, verslunarstjóri ELKO. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Styrktarsjóður ELKO færði í gær barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri, Aflinu og Hetjunum nokkrar gjafir. Fulltrúar allra þriggja mættu í verslun ELKO og tóku við tækjum og tólum.

Aflið eru samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi og Hetjurnar er félag langveikra og fatlaðra barna á Norðurlandi.

Haukur Hergeirsson verslunarstjóri ELKO segir styrktarsjóð fyrirtækisins árlega gefa ýmislegt til samtaka og stofnana eins og þeirra sem hann færði gjafirnar í gær. „Þannig vill fyrirtækið sýna í verki að slagorðið Það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli eru ekki bara orðin tóm.“

Hetjurnar fengu fartölvu, prentara og hátalara, Aflið kaffikönnu, samlokugrill og síma og barnadeild SAk tvær Nintendo switch leikjatölvur og tölvuleiki.