Elísa Kristinsdóttir til liðs við UFA
Ein fremsta hlaupakona landsins, Elísa Kristinsdóttir, er gengin til liðs við Ungmennafélag Akureyrar (UFA). Elísa hefur verið áberandi í hlaupasamfélaginu undanfarin misseri og bætti t.d. brautarmetið í Gyðjunni, 100 km leiðinni í Súlur Vertical, um einn og hálfan klukkutíma síðastliðið sumar.
Elísa vakti fyrst athygli fyrir góðan árangur í bakgarðshlaupum, þar sem hlaupinn er einn 6,7 km hringur á hverri klukkustund þar til aðeins einn keppandi er eftir. Vorið 2024 hafnaði hún t.d. í öðru sæti í bakgarðskeppninni, hljóp 56 hringi á 56 klukkutímum, eða 375 kílómetra.
Elísa var í landsliði Íslands í utanvegahlaupum sem tók þátt í heimsmeistaramótinu í fjallahlaupum í september sl. og hafnaði þar í 9. sæti í 82 km hlaupinu og fyrir stuttu sigraði hún í 36 km UTMB fjallahlaupi á Ítalíu. Hún hleypur líka götuhlaup og vann t.d. hálfmaraþonið í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst sl. á tímanum 1:18,32 klst. Þá hefur hún bætt árangur sinn í 10 km hlaupi jafnt og þétt.
Í fréttatilkynningu frá UFA kemur fram að næsta sumar stefnir Elísa á CCC, sem er 100 km hlaup í Frakklandi, sem og að keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu í fjallahlaupum sem fer fram í júní. „UFA er félag sem er vel áberandi og heldur vel utan um sína félagsmenn! Ég er spennt fyrir að vera partur af þeirri heild,“ segir Elísa í tilkynningunni. Þar segir einnig að UFA sé stolt af því að fá besta fjallahlaupara landsins í sínar raðir og hlakki til samstarfsins.