Fara í efni
Fréttir

Eldur í fjósi – Allar skepnur sluppu lifandi

Slökkviliðsmenn að störfum í Fellshlíð í morgun. Myndir: Þorgeir Baldursson

Eldur kviknaði í stóru fjósi við bæinn Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit í morgun. Um 150 nautgripir voru í fjósinu og sluppu allir gripirnir lifandi úr brunanum.

Vel gekk að slökkva eldinn að sögn Gunnars Rúnars Ólafssonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akureyrar, sem er á staðnum ásamt öllum öðrum tiltækum starfsmönnum. Fjósið er 1000 fermetrar og einnig er skrifstofurými í húsinu, eldurinn mun hafa komið upp þar en umfang tjóns liggur enn ekki fyrir.

Fellshlíð er austan Eyjafjarðarár á móts við Melgerðismela.

VIÐBÓT – Þegar slökkviðið kom á vettvang logaði mikill eldur í tæknirými við fjósið en ekki í fjósinu sjálfu eins og fyrstu upplýsingar gáfu til kynna. Hann barst ekki yfir í fjósið sjálft og skepnurnar voru því aldrei í hættu.