Fara í efni
Fréttir

Eldhaf brýtur Bitcoin ísinn hér á landi

Guðmundur Ómarsson, eigandi Eldhafs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Guðmundur Ómarsson, eigandi Eldhafs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Guðmundur Ómarsson, eigandi Eldhafs á Akureyri, býður nú viðskiptavinum að greiða fyrir vöru með rafmyntinni Bitcoin, bæð í verslun fyrirtækisins á Glerártorgi og í netverslun. Hann er sá fyrsti til að stíga skrefið hérlendis og selja vörur fyrir rafmynt í hefðbundnum viðskiptum.

Guðmundur segir að í viðskiptum verði menn alltaf að hafa allar klær úti. Hann hafi því tekið þessa ákvörðun í því skyni, í fyrsta lagi, að auka viðskipti en ekki síður til þess að koma rafmynt inn í íslenska hagkerfið og hann sé viss um að fleiri fyrirtæki muni fylgja í kjölfar hans. „Ég er sannfærður um að rafmynt er framtíðin,“ segir hann í samtali við Akureyri.net.

Talið er að um 3-4% Íslendinga eigi Bitcoin, Guðmundur kveðst vera einn þeirra og hann hafi kynnt sér rafmyntina vel undanfarin misseri. Stundum sé talað um rafmynt á niðrandi hátt og jafnvel talið að hún sé einkum notuð í vafasömum viðskiptum en það sé fjarri sanni. „Það er allt uppi á borðinu, endurskoðandi minn og bókari hafa aðgang að öllu og ég mun skila öllum gjöldum til ríksins, í íslenskum krónum,“ segir hann.

Heimasíða Eldhafs