Fara í efni
Fréttir

Ekki verður flogið frá Amsterdam í vetur

Flugvél Transavia á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands.

Ekkert verður af fyrirhuguðum flugferðum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel í vetur. Áætlun gerði ráð fyrir 10 flugferðum frá Amsterdam til Akureyrar á vegum fyrirtækisins, með flugfélaginu Transavia, í febrúar og mars 2021, en vegna heimsfaraldurs Covid-19 munu þær falla niður. Nýgengi smita í Hollandi og víðar á meginlandi Evrópu er enn mjög hátt og miklar takmarkanir á ferðalögum fólks. Voigt Travel mun þess í stað einbeita sér að sölu ferða næsta sumar, en stefnt er að vikulegum flugferðum frá 7. júní til loka ágúst. Jafnframt eru áform um flugferðir næsta vetur, frá febrúar 2022.

Byggja upp til framtíðar

„Síðasta sumar fór fyrir bí, eðlilega þar sem allt var í hers höndum þá en síðan stóðu vonir til þess að hægt yrði að halda vetraráætluninni, þeir biðu allt þar til núna í von um að ástandið myndi lagast, en bæði eru strangar hömlur á ferðum til Íslands og ástandið í Hollandi er það slæmt að yfirvöld biðja fólk í raun að fara ekki neitt. Og eins og okkar samstarfsmenn segja, þegar svo er þá bókar enginn eða fer neitt. Þeir segja okkur að þótt bóluefnið kæmi á morgun hafi þeir hreinlega ekki tíma til þess að selja núna í flug í febrúar. Tíminn væri of stuttur," sagði Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri flugklasans hjá Markaðsstofu Norðurlands, við Akureyri.net í morgun.

„En góðu fréttirnar eru þær að þau eru hvergi af baki dottin og vilja halda áfram að selja hingað ferðir. Nú einbeita þau sér að sumrinu og næsta vetri; þeim sem búnir voru að bóka ferðir hingað í vetur verður boðið að flytja sig yfir á næsta vetur og í framtíðinni vilja Hollendingarnir fjölga ferðum hingað, annað hvort lengja tímabilið eða auka tíðnina. Framtíðarstefna þeirra er að byggja þetta enn frekar upp," sagði Hjalti Páll.

Vél frá hollensku ferðaskrifstofunni á Akureyrarflugvelli síðasta sumar.