Fara í efni
Fréttir

Ekki haldbær rök fyrir 1000 íbúa lágmarki

Kirkjujörðin Laufás er í Grýtubakkahreppi. Hreppurinn er á móti því að farið verði gegn vilja íbúa v…
Kirkjujörðin Laufás er í Grýtubakkahreppi. Hreppurinn er á móti því að farið verði gegn vilja íbúa við sameiningu sveitarfélaga. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur eru á meðal 20 sveitarfélaga víðs vegar um land sem munu leggja fram tillögu á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga síðar í mánuðinum þar sem því er meðal annars hafnað að lágmarksfjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi verði lögfestur, eins og til stendur. Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga beri að virða, óháð stærð þeirra.

Umrædd sveitarfélög vilja að auki að landsþingið minni „á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði tillögunnar.“

Þá gagnrýna sveitarfélögin 20 stjórn sambandsins harðlega vegna aukalandsþings á síðasta ári, þar sem samþykkt var tillaga stjórnar um stuðning við þingsályktunartillögu um eflingu sveitarstjórnarstigsins með umræddri aðgerðaáætlun í 11 liðum. Tillaga stjórnar hafi ekki verið kynnt fyrr en umræður um hana hófust sem rími ekki vel við samþykktir sambandsins, og því hafi ekki gefist svigrúm til að bregðast við þó gallar kynnu að vera á tillögu stjórnar. „Eðlilega hlaut tillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins góðan stuðning, en ekki var kosið um einstaka aðgerðir einungis tillöguna í heild. Eftir á að hyggja var það gölluð málsmeðferð,“ segir í greinargerð með tillögunni sem lögð verður fyrir þingið 18. desember.

Eitt hinna helgu véa
Í greinargerðinni segir jafnframt: „Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er eitt af helgustu véum þeirra, þannig hefur það t.d. verið skilgreint hlutverk aðallögfræðings sambandsins sem hluti af hans starfi „að standa vörð um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga“. Það fer gegn eðli sambandsins og samþykkta þess að kjörnir fulltrúar taki afdrifaríkar ákvarðanir sem varða einungis örlög annarra sveitarfélaga en þeirra eigin, og gegn vilja þeirra sem þær snerta. Svo var einmitt með tillögu um íbúalágmark. Því hefði verið eðlilegra að sá liður í aðgerðaáætlun hefði verið undanskilinn þegar greidd voru atkvæði um tillöguna.

„Þrátt fyrir greinargerðir og mikinn málflutning er erfitt að sjá nokkur haldbær rök fyrir 1.000 íbúa lágmarki. Enda hafa komið fram sjónarmið um að eðlilegra væri að hafa markið hærra, jafnvel mikið hærra. T.d. mætti rökstyðja 8.000 íbúa mark með vísun í þjónustusvæði fatlaðra og ef horfa á til fullrar hagkvæmni í rekstri, væri kannski 20.000 nær lagi. En þá kemur landafræðin og dreifð byggð á móti sem gerir slíkt illframkvæmanlegt svo að virki. Aðstæður eru mjög mismunandi á Íslandi og því er engin ein tala sem hægt er að segja að sé hin eina rétta um land allt.“

Svalbarðsstrandarhreppur og Eyjafjarðarsveit eru meðal þeirra sveitarfélaga sem leggja fram tillöguna. Til vinstri sést yfir Svalbarðsströnd, til hægri yfir Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson.

 

Íbúum er treystandi
„Þrátt fyrir almenna stefnu um stækkun sveitarfélaga og eflingu þeirra, er lýðræðið grundvallaratriði. Enda er lýðræði og íbúalýðræði rauður þráður í þeirri tillögu sem samþykkt var að styðja,“ segir jafnframt í greinargerðinni. „Íbúum er fyllilega treystandi til að taka skynsamlegar ákvarðanir í sameiningarmálum og því óþarft að lögfesta íbúalágmark í sveitarfélögum. Enda er sannarlega margt að gerast í sameiningarmálum nú um stundir og mikið farsælla að sú þróun gerist ekki undir hótun um lögþvingun. Lýðræði endar ekki við einhverja tölu. Þeir sem styðja 1.000 íbúa lágmark geta ekki hafnað því að lágmarkið verði síðar sett í t.d. 5.000 eða 8.000. Fyrir slíkri afstöðu eru ekki rök, eingöngu eiginhagsmunir.

Minni sveitarfélög eru og hafa lengi verið fullgild aðildarfélög í sambandinu. Flest eru það enn og vilja vera svo áfram. Þau geta þó ekki unað við það til lengdar að á þeim sé brotið og þeirra íbúum. Kjörnir fulltrúar stærri sveitarfélaga hafa ekki lýðræðislegt umboð til að álykta um örlög minni sveitarfélaga, slíkt á ekki heima í þessum ágæta félagsskap. Fulltrúar stærri sveitarfélaga mættu hugsa til gullnu reglunnar: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“