Fara í efni
Mannlíf

„Ekki með alveg jafn djúpa rödd og pabbi!“

Vísir að afmælistónleikum Rúnars Þórs, er heiti skemmtunar sem fram fer á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudagskvöld. Þar mun hljóma tónlist lagasmiðsins, gítarleikarans og söngvarans dimmraddaða, Rúnars Þórs Péturssonar, og tilefnið er sjötugsafmæli hans síðastliðið haust.
 
Rúnar Þór hélt afmælistónleika með hljómsveit í Bæjarbíói í Hafnarfirði í haust. „Tónleikarnir voru frábærir og húsið troðfullt,“ segir Akureyringurinn Atli Már, sonur Rúnars við Akureyri.net. „Pabbi var hvattur til þess að halda aðra, en hann nennti því ekki!“ sagði Atli hlæjandi og bætti við, ekki síður í léttum dúr: „Hann nennti heldur ekki að koma með afmælistónleika norður!“
 
 
Atli Már Rúnarsson: „Lögin hafa fylgt mér alla tíð og það verður gaman að spila þau.“
Atli tók sig því til og ákvað að blása til vísis að afmælistónleikum ásamt eyfirsku tónlistarfólki. Rúnar Þór hefur samið fjölda smella í gegnum tíðina og flytja Atli og félagar öll þau vinsælustu, til dæmis Tina stjörnur, Ekkert rásmark, Brotnar myndir, Leiðin undir regnbogann, Silfurlituð nótt, Kveðja, 1.12.87, Drottningin vonda og Leiðarstjarnan.
 
„Lögin munu hljóma eitthvað öðruvísi en áður því söngkona verður með okkur, og svo er ég ekki með alveg jafn djúpa rödd og pabbi!“ segir Atli.
 
Hljómsveitina sem leikur á tónleikunum skipa Stefán Gunnarsson, bassaleikari, Valgarður Óli Ómarsson trommari, Hallgrímur Jónas sem leikur á gítar og Atli sjálfur. Hann er þekktur trommuleikari en að þessu sinni leikur Atli á gítar og syngur. Tveir gestasöngvarar verða með hljómsveitinni, Hanna Vigdís Jóhannesdóttir og Helgi Þórsson, félagi Atla í hljómsveitinni Helga og Hljóðfæraleikurunum.
 
Rúnar Þór hefur margoft leikið á hinum ýmsu stöðum Akureyri í gegnum tíðina en lögin hans hafa ekki hljómað mikið á tónleikum, segir Atli. „Lögin hafa fylgt mér alla tíð og það verður gaman að spila þau. Lögin eru mjög góð og textarnir líka, þeir hafa oft hitt í mark,“ segir Atli en föðurafi hans, Pétur Geir Helgason, samdi suma textana en höfundur langflestra er Heimir Már Pétursson, sjónvarpsfréttamaðurinn kunni, sem er bróðir Rúnars Þórs.
 
Tónleikarnir á Græna hattinum hefjast kl. 21.00.