Fara í efni
Fréttir

Eitt pósthús en nokkrir möguleikar að auki

Pósthúsið við Norðurtanga á Oddeyri.
Pósthúsið við Norðurtanga á Oddeyri.

Pósthúsin tvö á Akureyri verða sameinuð frá og með morgundeginum, 1. júní. Pósthúsinu við Strandgötu verður þá lokað og öll starfsemi fyrirtækisins á Akureyri verður eftir það við Norðurtanga.

„Við þessa sameiningu verður pósthúsið á Norðurtanga í hópi tveggja stærstu pósthúsa landsins út frá fjölda afgreiðslna með yfir 100 þúsund afgreiðslur á ári. Við þökkum fyrir góðar stundir á Strandgötunni og tökum vel á móti viðskiptavinum á Norðurtanga,“ segir í tilkynningu frá Póstinum.

Þjónustunet Póstsins á Akureyri verður héðan í frá ofið úr pósthúsinu við Norðurtanga, tveimur póstboxum – við Hagkaup og Nettó við Hrísalund – pakkaporti við Orkuna Hörgárbraut og netlúgu fyrir fyrirtæki sem staðsett er við Norðurtanga. „Ekki má gleyma heimsendingu til fyrirtækja og einstaklinga. Gaman er að segja frá því að þriðja póstboxið er væntanlegt fyrir utan Landsbankann Standgötu,“ segir í tilkynningunni.

„Viðskiptavinir Póstsins hafa kallað eftir fleiri afhendingarstöðum og sveigjanleika þegar kemur að því að sækja þjónustu til okkar. Við höfum svarað því með  fjölgun Póstboxa og Pakkaporti á Akureyri. Þetta eru afhendingarstaðir sem hafa sveigjanlegri afgreiðslutíma, eru staðsettir í alfaraleið og viðskiptavinir geta sótt sendingarnar sínar þangað sem þeim hentar þegar þeim hentar, en Póstboxin eru opin allan sólarhringinn. Við bjóðum alla velkomna til okkar á Norðurtanga,“ er haft eftir Skúla Rúnari Árnasyni, stöðvarstjóra Póstsins á Akureyri.

Póstboxið fyrir utan Nettó við Hrísalund.