Fara í efni
Menning

Einstakt safn – perla sem ekki má afskrifa

Smámunasafn Sverris Hermannssonar er í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Smámunasafn Sverris Hermannssonar er uppsett í Sólgarði, sem áður var félagsheimili Saurbæjarhrepps hins forna og jafnframt elsta félagsheimilið í Eyjafjarðarsveit. Safnstýran, Sigríður Rósa Sigurðardóttir, hefur áhyggjur af þeirri óvissu sem ríkir um framtíð safnsins en jafnvel stendur til að selja Sólgarð og pakka sýningunni.

Reynslan sýnir, segir Sigríður Rósa, að söfn sem sett eru í geymslu eigi sjaldan afturkvæmt. „Smámunasafn Sverris Hermannssonar er einstakt og það er perla sem ekki má afskrifa“, segir hún.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, tekur í sama streng. „Er ég heyrði af því að tilvera safnsins væri í hættu vegna sölu á þeirri aðstöðu sem það er í og að ætlunin sé að pakka því niður, þá setti mig hljóðan,“ segir hann í samtali við Akureyri.net.

 

Sigríður Rósa segir að fólkinu í sveitinni hafi fundist erfitt að sjá Sólgarð fara undir safn og bætir við: „Fæstir gera sér grein fyrir hvað þetta er merkilegt safn. Hér er Saurbæjarkirkja í bakgarðinum og Búvélasafnið. Þetta er það sem laðar ferðamenn fram fyrir Grund.“

Sigríður Rósa heldur áfram:

„Það er einstakt afrek hjá einum manni að safna öllum þessum munum sem eru á að giska 50.000 talsins, og hvernig hann gengur frá þessu er þvílíkri list svo Smámunasafnið flokkast líka sem listasafn og allir aldurshópar hafa gaman af því að skoða það. Við bjóðum upp á leiðsögn fyrir alla sem koma og með því teljum við okkur vera að viðhalda vitneskjunni um hið liðna sem má ekki glatast.“

Safnstýran segir enn fremur:

„Mér hefur alltaf fundist lítill áhugi hjá sveitungum á safninu og það er vannýtt af skólunum á svæðinu.“ Hún bætir við að á safninu sé að finna menningarminjar sem nýtist vel í námi. Þónokkrir nemendahópar hafa til að mynda komið frá Bandaríkjunum; safnanemendur, mannfræðinemendur og listnemendur. „Þetta safn er líka upplagt fyrir t.d. iðnnema að koma og sjá gömul áhöld og fleira, listnema til að skissa, og svo mætti áfram telja.“

Ydd af blýöntum úr ýmsum trjátegundum og hár af höfði Sverris Hermannssonar eftir að hann fór í klippingu til Ingva rakara 68 ára gamall árið 1996.

Fáir sem setja fyrir sig vegalengdina

Á Smámunasafninu er Kaffistofan og Smámunabúðin. „Þar erum við með handverk eingöngu eftir fólk í sveitinni sem vekur athygli á hvað hér er mikil sköpun“, útskýrir Sigríður Rósa og bætir við að safnið eigi sér líka fastakúnna sem komi reglulega yfir sumarið og fái sér vöfflu með heimagerðum sultum og kaffi. „Þetta er einfalt en þetta er gott“, segir safnstýran og bætir við: „Smámunasafnið er ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur hafa komið gestir frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Singapúr, Austurlöndum og Evrópu og allir geta tengt safnkostinn við eitthvað í sínu heimalandi. Vinsældir heimsókna frá t.d., vinnustöðum og félagasamtökum hafa aukist, sérstaklega yfir veturinn. Og það eru sóknarfæri í því að auglýsa safnið upp og bæta merkingar, því það er það sem fólk setur helst fyrir sig; það er erfitt að rata.“

Gestum fjölgar ár frá ári

Nú er að ganga í garð 19. sumar Smámunasafnsins og gestum hefur fjölgað jafnt og þétt ár frá ári og eru til að mynda orðnir fleiri en sækja Iðnaðarsafnið á Akureyri heim, en Sigríður Rósa segist hafa það safn til hliðsjónar þar sem þessi tvö söfn séu að mörgu leyti sambærileg: „Mjög sérstök söfn“, segir Sigríður Rósa. „Bæði eru þau fróðleg og skemmtileg og hafa mikla þýðingu í því að varðveita menningararfinn á svæðinu.“

Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra á Smámunasafni Sverris Hermannssonar.

 

Vantar skýra stefnu og framtíðarsýn fyrir safnið

Smámunasafnið heyrir undir menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar. Settur var á laggirnar starfshópur um málefni safnsins í upphafi og lagt til að stjórn yrði skipuð um málefni þess. Um það segir safnstýran: „Það hefur því miður ekki gengið eftir, starf einyrkjanna er flókið og stuðningur við forstöðumann þarf að vera miklu meiri. Það eru svo mörg tækifæri til að efla Smámunasafnið og þennan stað, enda var það framtíðarsýn þeirrar sveitastjórnar sem tók við þessari höfðinglegu gjöf að Sólgarður og Saurbæjartorfan yrðu menningarsetur; staðurinn yrði færður til fornar frægðar.“ Hún bætir við: „Sólgarður er elsta samkomuhúsið í sveitinni, samtvinnað sögu sveitarinnar og hægt væri að nýta það miklu betur en gert er án þess að það væri selt. Efling ferðaþjónustunnar í Eyjafjarðarsveit er í fullum gangi og Smámunasafnið er stór hluti af henni.“ Sigríður Rósa bætir við að allt varðandi væntanlega sölu á Sólgarði hafi farið hljótt og margir sem hún hafi rætt við séu ósáttir: „Þetta er sameign samfélagsins og raddir íbúanna verða að heyrast.“

Sigríði Rósu finnst hafa verið fram hjá sér gengið í ákvarðanatökum sem varða safnið og framtíðarsýn þess. En það sé mjög mikilvægt að kortleggja vel með tilliti til sögunnar og þeirra menningarminja sem Sverrir Hermannsson vann ötullega við að safna í 70 ár fyrir komandi kynslóðir. Hún bætir við að ekki hafi verið mörkuð ein einasta framtíðarstefna fyrir þetta safn og sér finnist það vanta.

„Hafir þú heila þökk fyrir ævistarf þitt“

Við opnunarathöfn Smámunasafnsins í júlí 2003 flutti Bjarni Kristjánsson, þáverandi sveitarstóri, ræðu þar sem hann sagði meðal annars:

„Ég vona að þeim sem nú er falið það hlutverk að varðveita frásögn þína og auka hana lífi, takist að varðveita hana með þeim hætti, sem góðir gjafarar verðskulda. Það hlutverk fellur íbúum Eyjafjarðarsveitar í skaut og ég vona og trúi að þeir telji sig ríkari en ella af gjöf ykkar og ræki hlutverk sitt með sóma. Auður ykkar er þó öllu meiri því ríkastur verður hver af gjöfum sínum. Þú hefur sjálfur sagt að engir tveir hlutir í heiminum séu eins. Þá hlýtur einnig að mega fullyrða að engir tveir menn í heiminum séu eins og enginn maður eins og Sverrir Hermannsson. Hafir þú heila þökk fyrir ævistarf þitt, fyrir smámunina, fyrir að sjá í hinum minnstu hlutum „menningarleg og listræn verðmæti komandi kynslóðum til fræðslu, gagns og ánægjuauka“ eins og segir í gjafabréfi ykkar...“

„Stórmerkilegt safn“

Akureyri.net hafði samband við Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands og spurði hann álits á Smámunasafninu og þeirri óvissu sem upp er komin um framtíð þess. Svar Sigurjóns er eftirfarandi:

„Smámunasafn Sverris Hermannssonar er stórmerkilegt safn. Eyjafjarðarsveit tók við höfðinglegri gjöf Sverris á sínum tíma og hefur lagt mikinn metnað í uppsetningu þess og rekstur í gegnum árin. Hróður þess hefur farið víða um heim og hef ég átt spjall við marga, bæði innlenda og erlenda gesti þess, um þá töfra sem það býr yfir. Safnið opnar fyrir okkur heim safnarans, sem hafði þá einstöku sýn á tímum fjöldaframleiðslu hluta, að engir tveir hlutir í veröldinni væru nákvæmlega eins - jafnvel þó að þeir séu fjöldaframleiddir! Þessi heimspeki Sverris er djúp og fær alla sem rekast á þessi orð hans á safninu til að hugsa nánar um tengsl sín við heiminn. Safnið skerpir því á hugsun og ekki síst skynfærum okkar. Safnið er jafnframt eitt það merkilegasta hér á landi þegar kemur að byggingarsögu, en ekkert safn hér á landi gefur jafn heildstætt yfirlit yfir þá ólíku og fjölbreyttu þekkingu sem handverksfólk þarf að búa yfir við smíðar á húsum. Þar kemur margt við sögu, hvort sem það eru einföld og flókin verkfæri sem þarf að kunna skil á eða hlutir sem tilheyra húsum og í amstri dagsins er horft framhjá snilld og hugkvæmni gerðar þeirra.“

„Þá setti mig hljóðan“

Sigurjón Baldur segir enn fremur: „Er ég heyrði af því að tilvera safnsins væri í hættu vegna sölu á þeirri aðstöðu sem það er í og að ætlunin sé að pakka því niður, þá setti mig hljóðan. Getur verið að hlutaðeigandi sem standa fyrir þeim gjörningi hafi ekki skilning á því hvað þeir hafa í höndunum? En, á sama tíma og starfsemin hefur verið öflug í gegnum árin, er alveg ljóst að miklu meira er hægt að gera með þennan fjársjóð en hingað til. Því miður hefur það gerst víða um land að söfnum hefur verið lokað og þeim pakkað. Mörg þeirra eru ennþá í kössum, árum og jafnvel áratugum eftir að hafa hlotið þau örlög.“

Í lokin bætir Sigurjón við: „Í mínum huga er skömm að því þegar svo hefur verið gert og virðingarleysi sýnt því fólki sem gefið hefur samfélögum og komandi kynslóðum mikil verðmæti.“

Sigríður Rósa tekur í sama streng og lýsir áhyggjum sínum af framtíð Smámunasafnsins, verði því pakkað. Reynslan sýni að söfn sem sett eru í geymslu eigi sjaldan afturkvæmt. „Smámunasafn Sverris Hermannssonar er einstakt og það er perla sem ekki má afskrifa“, segir Sigríður Rósa að lokum.