Fara í efni
Mannlíf

Ein með öllu snýr á gamla „heimavöllinn“

Akureyrarvöllur, gamli íþróttavöllurinn við Hólabraut, mun iða af lífi um verslunarmannahelgina. Mynd: Þorgeir Baldursson

Hátíðin Ein með öllu um verslunarmannhelgina verður að hluta til á Akureyrarvelli, gamla íþróttavellinum við Hólabraut, í fyrsta skipti síðan 2013. Þar áður var hátíðin síðast á vellinum 2008.

Lokatónleikar hátíðarinnar, „Sparitónleikar“ á sunnudagskvöldinu, hafa í mörg ár verið á flötinni neðan við Samkomuhúsið, en í sumar verða þeir á Akureyrarvelli eins og á árum áður. Tívólí og matarvagnar verða einnig þar alla helgina.

„Við tókum þá ákvörðun að færa Eina með öllu á Akureyrarvöll, það gerir í raun allt þægilegra; þar er stúka og stallar, svæðið er girt af og er í raun fullkomið tónleikasvæði,“ segir Halldór Kristinn Harðarson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, í samtali við Akureyri.net

Ein með öllu hefst fimmtudaginn 31. júlí og lýkur með „Sparitónleikum“ og flugeldasýningu sunnudagskvöldið 3. ágúst.

Frá lokakvöldi Einnar með öllu um verslunarmannahelgina 2008, þegar hátíðin var næst síðast haldin á Akureyrarvelli. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fjölbreytt dagskrá verður á ýmsum stöðum í bænum þessa daga; nefna má að krakkaskemmtun verður á Ráðhústorgi og þar verður einnig viðburður sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi – Mömmur of möffins, þar sem seldar eru bollakökur, „möffins“, til styrktar fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þá má geta þess að árlegur Skógardagur verður í Kjarnaskógi á sunnudeginum; viðburður sem hefur notið miklla vinsælda undanfarin ár.

Á „Sparitónleikunum“ sem áður vorunefndir koma fram Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Kristmundur Axel, Saint Pete, Aron Can, Skandall, Rúnar Eff og hljómsveit, Ágúst Þór og Tinna Óðins. Fleiri gætu bæst við.

„Öll í einu“ á laugardagskvöldi

Aðrir tónleikar hafa verið skipulagðir þessa sömu helgi á Akureyri, á laugardagskvöldinu – einnig á Akureyrarvelli. Þeim tónleikum hefur verið gefið það skemmtilega nafn „Öll í einu“ en þar kemur fram „ stórskotalið íslensku senunnar“ eins og Halldór Kristinn orðar það: Emmsjé Gauti, Páll Óskar, Friðrik Dór, GDRN, Birnir og hljómsveitin Á móti sól.

Selt er inn á laugardagstónleikana og er miðasala hafin á tix.is.

Ein með öllu á netinu

  • Upphaflega var sagt í fréttinni að Ein með öllu hefði ekki farið fram á Akureyrarvelli síðan 2008. Það er ekki rétt því lokatónleikarnir voru þar eitt ár í millitíðinni – um verslunarmannahelgina 2013.