Fara í efni
Mannlíf

Ein með öllu fyrir alla – MYNDIR

Krakkahlaup Súlur Vertical var haldið í fyrsta skipti í dag í Kjarnaskógi. Um 200 börn 12 ára og yng…
Krakkahlaup Súlur Vertical var haldið í fyrsta skipti í dag í Kjarnaskógi. Um 200 börn 12 ára og yngri tóku þátt. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu hófst á Akureyri í dag. Veðrið var í fínu lagi fram eftir degi, logn og þurrt en síðdegis fór að rigna. Sumir norðanmenn kalla þá hegðan náttúruaflanna jafnan gróðrarskúr sé magnið innan einhverra óskýrra marka, annars að það sé gott fyrir gróðurinn ... 

Mikið er um að vera í bænum alla helgina fyrir alla aldurshópa, margskonar tónlist í boði, íþróttakeppni og skemmtanir. Veðurspáin hefur ekki  verið góð, í vikunni var því spáð að á morgun myndi rigni eins og hellt væri úr fötu en svo gæti farið, miðað við mat sérfræðinga í kvöld, að Akureyringar slyppu að mestu leyti við úrkomuna.

_ _ _

KRAKKAHLAUP SÚLUR VERTICAL
Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram á morgun og í tengslum við það var í dag haldið krakkahlaup í fyrsta skipti. Um 200 börn spreyttu sig í nokkrum aldursflokkum í Kjarnaskógi, þar sem var líf í tuskunum.

_ _ _

TÓNLIST HÉR OG ÞAR
Veitingahús hér og þar um bæinn tóku sig saman og buðu upp á stutta tónleika og svo verður aftur á morgun. Í Cafe LYST í Lystigarðinum komu fram í dag DIA og Séra Bjössi.

_ _ _

TÍVOLÍ
Tívolí var opna í dag á flötinni neðan við Samkomuhúsið. Það verður opið á morgun og sunnudag frá klukkan 15.00 til 23.30.

_ _ _

MENNINGARSKOKK
Fjallahlaupið Súlur Vertical stóð fyrir menningarskokki með Vilhjálmi Bergmann Bragasyni í dag og stóð það öllum til boða. Villi leggur hér af stað frá Hofi síðdegis en á leið milli ýmissa merkisstaða fræddi hann fólk um sitthvað í sögu bæjarins.

_ _ _

KIRKJUTRÖPPUHLAUPIÐ
Keppt var í fjórum aldursflokkum í kirkjutröppuhlaupinu sem jafnan nýtur töluverðra vinsælda; lagt er af stað frá Hótel KEA og hlaupið upp að Akureyrkirkju.

_ _ _

ÓSKALAGATÓNLEIKAR
Akureyrarkirkja var troðfull í kvöld eins og venjulega þegar Óskalagatónleikar fara fram á föstudagskvöldi um verslunarmannahelgi. Eyþór Ingi Jónsson organisti og söngvarinn Óskar Pétursson hafa lengi komið þar fram og nú bættist Ívar Helgason söngvari í hópinn. Hljóðmeistari var Trausti Már Ingólfsson og lék hann meira að segja á ásláttarhljóðfæri í einu laginu. Listi með 185 lögum liggur frammi og kirkjugestir velja lög af listanum. Tónlistina fluttu þremenningarnir vel eins og þeir eru vanir og mjög var líka stutt í grínið, eins og venjan er líka ...