Fara í efni
Mannlíf

„Ég er sem betur fer stuttbuxnakall!“

Les Jardine ásamt konu sinni Söndru og sonum þeirra, Kieran og Liam. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Les Jardine og fjölskylda frá Liverpool í Englandi eru stödd í bænum í dag, en þau eru gestir á skemmtiferðaskipi sem bíður í Akureyrarhöfn á meðan ferðafólkið spókar sig í norðlensku blíðunni. Les segist alls ekki hafa búist við þessu veðurfari, þegar hann og kona hans Sandra bókuðu siglingu til Íslands um miðjan maí.

„Það hefur alltaf verið draumur hjá konunni minni að sjá hvali og okkur langaði að upplifa kalt veður,“ segir Les þegar blaðamaður Akureyri.net truflar hann við áningu á Ráðhústorgi. Það er ljóst að fjölskyldan þarf að koma aftur til Íslands, vegna þess að kuldinn er víðsfjarri þessa dagana.

„Þetta veður er ótrúlegt! Við tókum nánast engan léttan fatnað með okkur, en ég sem betur fer stuttbuxnakall,“ segir Les. „Við erum bara búin að vera að halda á yfirhöfnum og peysum. Við áttum frábæra hvalaskoðunarferð í morgun á firðinum, þar sem draumurinn rættist og við sáum stóra hvali. Við höfðum áður séð litla hvali á Tenerife, en þetta var í fyrsta skipti sem við höfum séð hnúfubaka, til dæmis.“ 

 

Les var hissa að sjá hitatölurnar á súlunni góðu við Ráðhústorgið. Blaðamaður varð reyndar að viðurkenna að sennilega væri þessi súla í ruglinu. Það er vissulega heitt, en það er ekki 30°, hitamælirinn í símtækjum okkar beggja sýndi 20°. Mynd: RH

Hissa á öllum framkvæmdunum

„Það er svo mikið á seyði! Framkvæmdir, byggingakranar og iðnaðarmenn út um allt,“ segir Les, aðspurður um það hvort það sé eitthvað sérstakt, fyrir utan veðrið, sem hafi komið honum á óvart hingað til á Akureyri. 

„Við erum á níu daga ferð í kring um Ísland,“ segir Les, en siglingin frá Englandi tekur þrjá daga og svo eru þrjú stopp við Íslandsstrendur á dagskrá. „Fyrst stoppuðum við í Reykjavík, svo á Ísafirði og nú erum við í síðasta stoppinu okkar á Akureyri. Í kvöld hefst svo þriggja daga heimferð til Newcastle. Við ætluðum upphaflega að koma árið 2020, vorum með allt klárt og bókað þá, en vegna Covid datt það allt uppfyrir. Okkur langaði alltaf að koma hingað, aðallega til þess að freista þess að sjá hvali. Við erum hæstánægð með ferðina, og þetta óvænta sumarveður er bara plús.“