Fara í efni
Fréttir

„Ég dunda mér við að draga andann!“

Helga Margrét Jóhannesdóttir í dag þegar hún fagnaði 100 ára afmælinu með fjölskyldunni. Ljósmynd: Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir

Í dag er Helga Margrét Jóhannesdóttir, fyrrverandi bóndi í Sandhólum í Eyjafjarðarsveit, hundrað ára. Hún fagnaði áfanganum með afkomendum sínum og fjölskyldu á veitingahúsinu Greifanum á Akureyri í dag.

Helga fæddist í Nesi í Saurbæjarhreppi. Foreldrar hennar voru Kristjana Guðlaugsdóttir úr Mývatnssveit og Jóhannes Friðriksson, bóndi í Nesi í Saurbæjarhreppi. Eiginmaður Helgu var Sigtryggur Sveinbjörnsson, fæddur á Kolgrímastöðum í Saurbæjarhreppi 12. febrúar 1916; kenndur við Saurbæ. Hann lést 18. janúar 1999.

Börn Sigtryggs og Helgu eru:

Hulda Berg f. 6. september 1940 – d. 7. júní 1954, Hrafnborg f. 20. september 1943 – d. 7. júní 1954, Sigrún f. 17. nóvember 1949 – d. 7. júní 1954, Sveinbjörn f. 11. október 1946, Jóhannes Rúnar f. 26. apríl 1957. Kona hans er Elísabet Wendel Birgisdóttir f. 13. júní 1963, Hulda Sigurborg f. 26. desember 1958. Eiginmaður hennar er Haukur Magnússon f. 15. mars 1954 og Grétar 23. nóvember 1964 – d. 9. maí 2019. Helgu hefur áskotnast 14 barnabörn og 17 barnabarnabörn.

Veislugestir í 100 ára afmælisveislunni á Greifanum í dag. Nokkrir afkomendur voru fjarverandi.

Helga og Sigtryggur hófu búskap í Sandhólum 1937 og bjuggu þar allt til ársins 1994 en þá fluttu þau til Akureyrar. Helga býr enn í íbúðinni sem þau keyptu á Akureyri og er alltaf söm við sig; höfðingi heim að sækja og ákaflega fróðleiksfús. Þá er best að vitna í ræðu sem alnafna hennar, Helga Margrét Jóhannesdóttir, flutti á Greifanum í dag.

Þegar ég var komin 20 vikur á leið með eldra barnið mitt Leu, fór ég til ömmu Helgu sem byrjaði að rekja úr mér garnirnar eins og vant er. Þegar ég sagði henni að við vissum kynið en ætluðum að halda því leyndu um sinn varð hún er að sjálfsögðu ólm að fá vita þetta en ég sagði henni að hún yrði að bíða í tvær vikur því þá myndum við tilkynna öllum á sama tíma.

Ég gleymdi því í smá stund að hér erum við að tala um fagmann í upplýsingaöflun sem veit nákvæmlega hvað þarf að gera og segja til að fá þær upplýsingar sem hún vill. Og hennar svar við þessu? „Ég verð kannski dauð þá, og fæ ég aldrei að vita kynið“ Og ég brotnaði og sagði henni að það væri stúlkubarn á leiðinni.

Um 15 mánuðum síðar þegar ég var komin 20 vikur á leið með annað barn, hann Loga, nýbúin að fá að vita að ég gengi með dreng fór ég aftur í kaffi til ömmu staðráðin í að standa í lappirnar með kassann úti og halda þeim upplýsingum algjörlega fyrir sjálfa mig. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að ég ætti roð í forvitni ömmu en stutta útgáfan er sú að amma var klókari og ekki nóg með að hún hefði upp úr mér kynið; hún var búin að ná út úr mér nafninu líka!“

Þeir sem hafa þekkt hana Helgu Margréti í Sandhólum vita að hún er ákaflega heilsteypt, áræðin, þrautseig, félagslynd, harðdugleg, ljóngáfuð og með góðan húmor. Hún klárar allt sem hún byrjar á og finnst ekkert sérstaklega gott að biðja aðra um aðstoð. Lífið hefur ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum en hún stendur sterk og ákaflega minnug á aldarafmæli sínu. Hún segist þó vera tilbúin að kveðja þennan heim og hverfa á vit ástvina sinna sem horfnir eru. En þangað til, eins og hún orðar það sjálf, þegar hún er spurð hvað hún hefur fyrir stafni: „Ég dunda mér við að draga andann!“

Akureyri.net óskar Helgu Margréti Jóhannesdóttur innilega til hamingju með 100 ára afmælið.

Alnöfnurnar Helga Margrét Jóhannesdóttir og Helga Margrét Jóhannesdóttir.