Fara í efni
Fréttir

Eðlilegra að ræða við heilbrigðisráðherra

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Hilda Jana Gísladóttir, varaforseti bæjarstjórnar og Heimir Haraldsson, bæjarfulltrúi, segja Björn Val  Gíslason, fyrrverandi alþingismann og varaformann VG, reyna að slá ryki í augu almennings með grein sem hann skrifaði um málefni Öldrunarheimila Akureyrar og birtist á Akureyri.net í gær. Þau sendu eftirfarandi, eftir að Akureyri.net falaðist eftir viðbrögðum oddvita flokkanna í bæjarstjórn við grein Björns Vals.

„Við skiljum fyrrverandi varaformann VG mætavel að eiga erfitt með að horfast í augu við að ríkið hafi fært rekstur Öldurnarheimila Akureyrarbæjar til einkahlutafélags í heilbrigðisþjónustu á vakt VG. Það er hins vegar vægast sagt sérkennilegt að slá ryki í augu almennings og láta sem svo að bæjarstjórn Akureyrarbæjar beri ábyrgð á því. Akureyrarbær skilaði rekstri ÖA til ríkisins eftir langvarandi skort á fjármagni frá ríkinu til rekstursins. Ríkið eitt og óstutt gerði síðan samning við umrætt félag. Ríkið hefði getað fyrir löngu síðan komið að því að tryggja fjármögnun ÖA hjá Akureyrarbæ og hefði einnig getað ákveðið að fela HSN [Heilbrigðisstofnun Norðurlands] reksturinn, hefði verið vilji til þess. Ríkið ákvað hins vegar að fara þessa leið. Við höfum margítrekað sagt að við teljum þessa stöðu ákaflega sorglega. Varðandi yfirlýsingar bréfritara um að Akureyrarbær hafi misst tökin á rekstrinum, þá er það einfaldlega ekki rétt og ætti sú staðreynd að vera öllum ljós sem fylgst hafa með umræðu um erfiðleika við rekstur hjúkrunarheimila um land allt. Spurningu um hvað hafi borið á milli þess samnings sem nýr rekstraraðili gerði við Sjúkratryggingar um rekstur ÖA og hins vegar þess samnings sem Akureyrarbær hvarf frá, þá er því til að svara að við höfum ekki upplýsingar um það, enda Akureyrarbær ekki aðili að þeim samningi. Hafi nýjum rekstraraðila tekist að ná betri samningum við Sjúkratryggingar en Akureyrarbær, þá væru slíkar upplýsingar mjög fróðlegar sem og ástæður þess. Eðlilegra væri að fyrrverandi varaformaður VG myndi beina orðræðu sinni og spurningum til heilbrigðisráðherra VG og þeirrar ríkisstjórnar sem VG tekur þátt í. Að þessu sögðu bindum við að sjálfsögðu vonir við að reksturinn gangi sem allra best fyrir íbúa, aðstandendur og starfsfólk og óskum við nýjum rekstraraðilum alls velfarnaðar.“

Halla Björk er oddviti Lista fólksins í bæjarstjórn, Hilda Jana oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og Heimir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Smelltu hér til að lesa grein Björns Vals í gær