Fara í efni
Íþróttir

Dýrmætt að vinna – og gott fyrir sálina!

Arna Sif lék mjög vel í miðju varnarinnar í gærkvöldi eins og venjulega og var aldrei langt frá hættulegasta framherja Tindastóls, Murielle Tiernan, lengst til hægri. Til vinstri er Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Margrét Árnadóttir er númer 7. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA vann langþráðan sigur í gærkvöldi, þegar liðið lagði Tindastól frá Sauðárkróki 1:0 í efstu deild Íslandsmótsins, Pepsi Max deildinni. Þetta var nefnilega fyrsti sigur liðsins á heimavelli í sumar, í áttunda og næst síðasta deildarleik vertíðarinnar á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum).

„Það var lífsnauðsynlegt að vinnan þennan leik,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, við Akureyri.net eftir sigurinn. Það eru orð að sönnu, enda sannkallaður „sex stiga leikur“ eins og þær eru gjarnan kallaðar, viðureignirnar þar sem bæði lið þurfa bráðnauðsynlega á öllum þremur stigunum að halda.

„Við reyndum að gera ekki of mikið úr mikilvæginu heldur að fara í leikinn eins og alla aðra,“ sagði fyrirliðinn. „Fyrst og fremst var kominn tími á að vinna hér á heimavelli, það var númer eitt, og mér fannst sigurinn verðskuldaður. Ég hefði helst viljað fá fleiri mörk, en fannst draga úr gæðunum í seinni hálfleik og nú erum við bara mjög sáttar við þrjú stig.“

Völlurinn var blautur eftir rigningu fyrr um daginn, sem setti svip á leikinn. Arna sagðist hafa búist við að Tindastólsliðið kæmi til þess að berjast eins og það möguleika gæti og sú hefði orðið raunin. En hvað sem því liði og gæðum leiksins skiptu stigin þrjú gríðarlegu máli. „Það var mjög dýrmætt fyrir okkur að vinna – og gott fyrir sálina,“ sagði fyrirliðinn að lokum.

Smellið hér til að lesa um leikinn.

Staðan í deildinni