Fara í efni
Menning

„Draugar“ komu með bækur úr álfheimum

Í tilefni af útgáfu ungmennabókarinnar, ÓRÓI, krunk hrafnanna, fór fram gjörningur við bæinn Háls undir Hraundranga í Öxnadal í morgun. Þar tók höfundurinn, Hrund Hlöðversdóttir rithöfundur, formlega við fyrstu eintökum bókarinnar, úr höndum tveggja drauga, Sesselíu Hólaskottu og afturgöngunni Sigurfagra, sem afhentu bækurnar nýprentaðar frá álfheimum, eins og Hrund orðar það.

Nemendur í 8. bekk Hrafnagilsskóla og 7. og 8. bekk Þelamerkurskóla voru viðstaddir og tóku þátt í viðburðinum.

ÓRÓI, krunk hrafnanna er ungmennabók sem byggir á þjóðsagnaarfi Íslendinga. Bókin er sjálfstætt framhald fyrri bókar, ÓGN, ráðgátan um Dísar-Svan sem kom út haustið 2021.

„Sögusvið ÓRÓA er undir Hraundranga í Öxnadal í kyngimagnaðri nàttúrufegurðinni við Hraunsvatn. Nú eru það draugar eins og þeir koma fyrir í þjóðsagnaheiminum sem flækjast inn í veröld Svandísar og vina hennar þegar þau þurfa enn og aftur að leysa málin í álfheimum. Það reynir á útsjónarsemi, þor og dirfsku Svandísar og vinahópsins ef þeim á að takast að leysa vin úr haldi, finna falinn fjársjóð og stöðva yfirvofandi stríð,“ segir í tilkynningu.

Nánar má lesa um bókina og höfund á heimasíðunni www.hrund.net

Undir Hraundranga í morgun. Hrund ásamt afturgöngunni Sigurfagra, Sesselíu Hólaskottu og börnum úr Þelamerkur- og Hrafnagilsskólum.