Fara í efni
Íþróttir

Dramatík í leik KA og Vals – MYNDIR

Nökkvi Þeyr Þórisson skorar af harðfylgi fyrir KA í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Töluvert gekk á í seinni hálfleik þegar KA og Valur skildu jöfn 1:1 í kvöld í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, á Greifavelli hinum síðari; nýja gervigrasvellinum á félagssvæði KA.

Fyrri hálfleikurinn einkenndist af mikilli stöðubaráttu, hvorugt lið náði að skapa almennileg færi nema hvað einn Valsaranna skallaði í þverslá strax á upphafsmínúnum. Fjör færðist hins vegar í leikinn í seinni hlutanum.

_ _ _

VALUR KEMST YFIR
Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði fyrra mark leiksins á 64. mínútu og KA-menn geta nagað sig hraustlega í handarbökin vegna þess. Þeir áttu hornspyrnu og eftir baráttu í vítateig Vals fékk Ágúst Eðvald Hlynsson boltann og þrumaði fram völlinn þar sem Tryggvi Hrafn var aleinn og yfirgefinn við miðlínuna. Hann tók á sprett, lék á Jajalo markvörð og Svein Margeir Hauksson sem var fyrstur til baka, og skoraði auðveldlega.

_ _ _

RAUTT SPJALD
Valsarinn Guðmundur Andri Tryggvason var rekinn út af á 68. mínútu fyrir að slæma hendi framan í Kristijan Jajalo, markvörð KA þegar hann hafði gripið boltann eftir fyrirgjöf. Það var algjör óþarfi og raunar óskiljanlegt hvers vegna Guðmundur tók þetta til bragðs. Erlendur Einarsson dómari var nærstaddur og dró rauða spjaldið þegar í stað úr rassvasanum.

_ _ _

KA JAFNAR
KA-menn sóttu af miklum móð á lokakaflanum eftir að þeir voru orðnir einum fleiri og Nökkvi Þeyr Þórisson náði að jafna á 81. mínútu eftir mjög góðan undirbúning Andra Fannars Stefánssonar. Andri smeygði sér framhjá varnarmönnum hægra megin í vítateig Vals, sendi boltann út í teig þar sem Nökkvi Þeyr var á undan Birki Má Sævarssyni og skoraði laglega með vinstri fæti í vinstra hornið.

_ _ _

VÍTI?
Nökkvi Þeyr féll með tilþrifum í vítateig Vals á lokamínútu hefðbundins leiktíma og margir utan vallar heimtuðu vítaspyrnu en Erlendur Eiríksson, sá margreyndi og yfirvegaði dómari, skellti skollaeyrum við þeim kröfum. Birkir Már Sævarsson náði að spyrna boltanum í burtu en virtist ekki brjóta á Nökkva. Hólmar Örn Eyjólfsson, varnarmaðurinn öflugi hjá Val, var ekki sáttur við KA-manninn unga, taldi hann greinilega hafa reynt að plata dómarann og lét hann heyra það. Þeir Hólmar og Nökkvi skildu þó sáttir.

_ _ _

TVEIR SNÉRU AFTUR
Kristijan Jajalo stóð í marki KA í kvöld í fyrsta skipti í deildarleik síðan 1. október 2020 þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Breiðablik í Kópavogi. Jajalo handarbrotnaði rétt áður en Íslandsmótið hófst í fyrra. Fyrsti leikur hans í sumar var gegn Fram í bikarkeppninni á dögunum.

Þá kom Hrannar Björn Steingrímsson við sögu hjá KA í kvöld í fyrsta skipti síðan 27. júní á síðasta ári. Þann dag lék hann gegn FH í 1:1 jafntefli í Hafnarfirði en slasaðist mjög illa á æfingu fljótlega eftir það, sleit m.a. krossband í hné. Hrannar skipti í vor í  uppeldisfélagið, Völsung á Húsavík, og tók þátt í fimm leikjum í 2. deildinni í sumar til að koma sér í leikæfingu.

Í leiknum gegn FH 2021 kom Hrannar inn á þegar fimm mínútur voru eftir fyrir bróður sinn, Hallgrím Mar. Svo skemmtilega vildi til í kvöld að Hrannar kom aftur inn á fyrir Hallgrím!

_ _ _

HVER FÓR ÚTAF?
KA skipti tveimur leikmönnum inn á þegar vallarklukkan sýndi 87. mínútu. Hrannar Björn og afmælisbarnið Jakob Snær Árnason komu inni á en útaf fóru Hallgrímur Mar og Ásgeir Sigurgeirsson. Elfar Árni Aðalsteinsson fór EKKI út af eins og tilkynnt var í hátalarakerfinu og greint er frá á vefmiðlum í kvöld. Rétt er að benda á þetta fyrir áhugasama tölfræðinga. Reyndar er ekki undarlegt að menn hafi ruglast því Elfar Árni hélt í fyrstu sjálfur að hann ætti að fara út af og rölti af velli við mark Vals en snéri við þegar í ljós kom að Ásgeir átti að víkja fyrir Jakobi.