Fara í efni
Fréttir

Dóra Ólafsdóttir er orðin 109 ára

Dóra Ólafsdóttir og sonur hennar, Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari.
Dóra Ólafsdóttir og sonur hennar, Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari.

Dóra Ólafsdóttir frá Kljáströnd í Eyjafirði, elsti Íslendingurinn, er 109 ára í dag. Dóra, sem var til heimilis í Norðurgötu 53 á Akureyri í áratugi ásamt eiginmanni sínum, Þóri Áskelssyni, býr nú á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík. Þórir lést árið 2000 en Dóra bjó áfram í húsnæði þeirra þar til hún flutti á höfuðborgarhornið 100 ára gömul 2012.

Haldið var upp á afmælið síðasta sunnudag með kaffisamsæti á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík, þar sem Dóra hefur búið síðustu ár. Úr varð nokkurs konar ættarmót þar sem tæplega 50 manns komu saman, þar á meðal ættingjar og vinir sem óku suður yfir heiðar frá Akureyri í tilefni tímamótanna. Boðið var upp á hefðbundið, íslenskt kaffibrauð og sungin lög sem Dóra hafði óskað sérstaklega eftir að yrðu sungin, að sögn sonar hennar, Áskels Þórissonar, blaðamanns, ritstjóra og ljósmyndara.

Akureyri.net sendir Dóru innilegar hamingjuóskir á afmælisdaginn.

Bjarmi frá Kötlugosinu yfir Vaðlaheiðinni

Halldóra Haraldsdóttir, frænka Dóru, ávarpaði veislugesti á sunnudaginn. „Það er víst ábyggilegt að Dóra man tímana tvenna. Hún man til dæmis Kötlugosið 1918 en bjarminn frá því sást á himni yfir Vaðlaheiðinni og gjóska frá gosinu dreifðist að einhverju leyti yfir heimaslóðirnar á Kljáströnd. Hún man líka Frostaveturinn mikla þetta sama ár, einkum að þau krakkarnir léku sér á ísjökum í fjöruborðinu,“ sagði Halldóra meðal annars.

„Á fyrstu áratugum 20. aldar þegar Dóra var barn, stóð útgerðin á Kljáströnd í blóma, allir, jafnt ungir sem gamlir, þurftu að leggja hönd á plóg – ýmist við heimilisstörf á stóru búi eða störf sem tengdust útgerðinni,“ sagði Halldóra. „Til dæmis tóku krakkarnir þátt í því að vaska og breiða fisk – stokka upp línu og beita fyrir næsta róður. En þrátt fyrir annir áttu þau þess kost að ganga í skóla, í barnaskóla var gengið til Grenivíkur hvernig sem viðraði en síðan var haldið til Akureyrar og lauk Dóra gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum þar – sem síðar varð Menntaskólinn á Akureyri. Eftir nám dreif Dóra sig til Kaupmannahafnar sem á þeim tíma hlýtur að hafa verið mikið ævintýri og óvenjulegt af stelpu undir tvítugu – en það, meðal annars, sýnir að Dóru var ekki fisjað saman þá fremur en nú. Þegar hún kom heim aftur hóf hún fljótlega ævistarfið sem talsímakona hjá Landsímanum á Akureyri og vann þar í fjörutíu ár.“

Hollt mataræði, ganga og sund

Þegar Dóra er spurð hverjar hún telji ástæðurnar fyrir því að hún hafi náð svo háum aldri nefnir hún hollt mataræði, að hún hafi alla tíð gengið til vinnu og stundað sund.

„Ég held líka að persónuleiki Dóru hafi sitt að segja í þessum efnum; hún er jafnlynd, hún er föst fyrir, lætur ekki ganga yfir sig. Hún gefst aldrei upp en tekur því sem að höndum ber af æðruleysi. Og svo má kannski ætla að það að alast upp við rætur hins kröftuga Kaldbaks hafi veitt orku og afl sem veganesti út í lífið,“ sagði Halldóra.

Hún nefndi að dugnaður og athafnasemi einkenndi Dóru: „hún lætur sér ekki verk úr hendi falla – ekki heldur núna þegar árin eru komin á annað hundraðið – hún prjónar, les, gengur á milli staða í húsinu og fer í heimsóknir, hún fylgist með fréttum, aflar frétta, segir frá og spjallar um menn og málefni. Og Dóra er gjafmild, hún vill ekki eiga neitt inni hjá öðrum og þakkar fyrir sig með gjöfum – til dæmis gefur hún allt sem hún prjónar og það er ekki lítið sem hún hefur áorkað í þeim efnum.

Seigla er umfram allt einkennisorð sem mér finnst eiga við Dóru – uppgjöf er ekki til í hennar orðabók. Sjálf segist hún muni standa í fæturna svo lengi sem hún getur og stíga fast til jarðar – og það gerir hún í orðsins fyllstu merkingu,“ sagði Halldóra Haraldsdóttir.

Kljástrandardömur í afmæliskaffi Dóru síðasta sunnudag. Frá vinstri: Elín Ringsted, Þóra Soffía Ólafsdóttir, systir Dóru, og afmælisbarnið.

Afmælisbarn dagsins, Dóra Ólafsdóttir, og feðginin Áskell Þórisson og Laufey Dóra Áskelsdóttir.