Fara í efni
Menning

Dans og flygladúó í Hofi á fimmtudaginn

Dans og flygladúó í Hofi á fimmtudaginn

Fimmtudaginn 5. ágúst verða tveir myndarlegir viðburðir í Hofi. Annars vegar frumlegur, nútímalegur dans og hins vegar magnaður leikur á tvo flygla.

Tveir vinstri fætur? er danssýning sem er hluti af Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs. Um er að ræða dansverk þar sem hinum ólíkustu hugmyndum fólks um dans er velt upp, eins og segir í kynningu frá Verðandi. Spurt er hvort dans þurfi að takmarkast við annaðhvort áhugamál eða atvinnugrein eða hvort maður þurfi að kunna að dansa til þess að hafa áhuga á honum, og ekki síst hvort listformið geti vakið áhuga hjá þeim sem telja sig hafa tvo vinstri fætur. Vísað er í Friðrik Dór sem hefur sagt að það megi ýmist sófadilla sér með laginu eða dansa eins og fagmaður. Sófadillinu og fagmennskunni verður blandað saman með kómísku ívafi.

Listrænir stjórnendur, danshöfundar og dansarar verksins eru Arna Sif og Ólöf Ósk Þorgeirsdætur. Einnig dansa Birta Ósk Þórólfsdóttir og Sunneva Kjartansdóttir í verkinu. Sýningin Tveir vinstri fætur hefst klukkan 18.00. Aðgöngumiðar fást hér á vef Menningarfélags Akureyrar.

Töfrandi heimur flyglanna

Það dugar ekki einn flygill heldur verða þeir að vera tveir þegar um er að ræða flygladúó. Laufey S. Haraldsdóttir og Sólborg Valdimarsdóttir skipa Flygladúóið Sóley sem leikur á tónleikum í Hofi fimmtudaginn 5. ágúst. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00.

Flygladúóið Sóley leikur verk frá mismunandi tímabilum tónlistarsögunnar, sem veita innsýn í hinn margbrotna tónheim tveggja flygla. Á tónleikunum verða annars vegar frumflutt glæný íslensk verk sem samin eru sérstaklega fyrir dúóið. Auk þeirra munu hljóma verk eftir Händel, Mozart, Ravel, Piazzolla og Shostakovich. Þetta er sannkölluð flyglaveisla þar sem stíll hvers tímabils skín í gegn og möguleikar flyglanna eru nýttir til hins ýtrasta.

Töfrandi heimur flyglanna er einnig hluti af Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs. Aðgöngumiðar fást á vef Menningarfélags Akureyrar; smellið hér til að kaupa miða.