Fara í efni
Íþróttir

Dagur, Ísfold, Mateo og knattspyrnuliðið

Fengu Böggubikar. Dagur Árni Heimisson og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir. Mynd af vef KA.

Meistaraflokkur í knattspyrnu var valinn lið ársins hjá KA í fyrra og Miguel Mateo Castrillo, þjálfari karla- og kvennaliðsins félagsins í blaki, var valinn þjálfari ársins. Niðurstaðan var tilkynnt á afmælishátíð KA í Hofi um helgina að því er segir á vef KA í dag.

Í afmælisfögnuðinum var Böggubikarinn einnig afhentur; farandbikar sem veittur er pilti og stúlku á aldrinum 16 til 19 ára sem þykja efnileg í íþrótt en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Að þessu sinni urðu Ísfold Marý Sigtryggsdóttir knattspyrnukona og handboltamaðurinn Dagur Árni Heimisson fyrir valinu.

Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhent árið 2015 á 87 ára afmæli KA, segir á vef félagsins í dag.

Nánar hér á heimasíðu KA.