Fara í efni
Fréttir

Dagskráin í dag – „Við sköpum verðmætin“

Kröfugangan í göngugötunni á Akureyri á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks á síðasta ári. Mynd: Þorgeir Baldursson

Upper er runninn 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkafólks, „ árleg áminning um mátt samstöðu og nauðsyn áframhaldandi baráttu fyrir réttlæti og mannsæmandi lífskjörum fyrir alla,“ eins og það er orðað á vef verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju.

„Í ár fylkjum við liði undir kjörorðunum Við sköpum verðmætin og hvetjum við félagsfólk til þess að sýna samstöðu með því að fjölmenna í kröfugöngu á Akureyri og taka þátt í hátíðardagskrá á Akureyri og í Fjallabyggð,“ segir á vef félagsins.

Dagskráin á Akureyri í dag – kröfuganga og hátíðardagskrá – er sem hér segir:

13:45 – Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið

14:00 – Lagt af stað við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar

Hátíðardagskrá í Hofi að lokinni kröfugöngu

  • Kynnir er Eyrún Huld Haraldsdóttir
  • Ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna – Bethsaida Rún Arnarson
  • Hátíðarræða – Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-iðju
  • Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir atriði úr söngleiknum um Galdrakarlin í OZ
  • Karlakór Akureyrar Geysir tekur lagið

Að dagskrá lokinni er boðið upp á veitingar. Pylsur, safi og andlitsmálming fyrir börn.

HÁTÍÐARHÖLD Í 100 ÁR

Í Hofi hafa verið hengdir upp fjölmargir hátíðarfánar bæði starfandi og eldri stéttarfélaga. Frá þessu er grein á vef Einingar-Iðju og fólk hvatt til að skoða þá vel, en hátíðardagskrá er í húsinu að lokinni kröfugöngu, sem fyrr segir.

„1. maí er auðvitað alltaf stór dagur hjá öllu verkafólki en í ár fögnum við 100 ára afmæli Fyrsta maí-hátíðarhalda við Eyjafjörð,“ segir á vef félagsins. „Saga verkalýðshreyfingarinnar hér nær auðvitað mun lengra aftur í tímann en fyrstu áratugirnir fór eingöngu í það að fá vinnandi fólk til að trúa því að hag þess væri best borgið í stéttarfélagi og jafnframt að fá atvinnurekendur til að viðurkenna tilvist verkalýðsfélaga og setjast að samningaborðinu. Það var svo fyrst fyrir sléttum 100 árum sem forverar okkar gáfu sér tíma til að brydda upp á skemmtun og léttleika samhliða baráttunni. Því aldarafmæli fögnum við í ár.“