Fara í efni
Fréttir

Hverfafundir bæjarins í dag og á morgun

Akureyrarbær boðar til hverfafunda í öllum skólahverfum bæjarins. Tveir fundir verða haldnir í þessari viku og þráðurinn síðan tekinn upp aftur næsta haust.

Fyrsti fundurinn verður haldinn í dag kl. 17 í Brekkuskóla og annar í Síðuskóla á morgun, fimmtudaginn 23. maí kl. 17. Gert er ráð fyrir að hver fundur taki um klukkustund.

Á fundunum verður lagt upp með tvær meginspurningar:

  • Hvað er gott við hverfið þitt?
  • Hvað má bæta í hverfinu?

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, opnar hvern fund með stuttu ávarpi en síðan brjóta íbúar umrædds hverfis spurningarnar tvær til mergjar. Bæjarfulltrúar verða í salnum og hafa það hlutverk að skrifa niður þær hugmyndir, umkvartanir, lof og last, sem fram koma í umræðuhópum íbúanna. Megináhersla verður lögð á að samtalið fari fram á forsendum bæjarbúa.

Niðurstöðum fundanna, ábendingum og hugmyndum, verður komið í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frekari úrvinnslu.

Á hverjum fundi verður einblínt á nærumhverfið með íbúum hvers hverfis en að sjálfsögðu eru öll velkomin á alla fundina. Þráðurinn verður tekinn aftur upp í haust, fundir haldnir í öllum öðrum grunnskólum bæjarins og stefnt að því að sú yfirferð klárist í haust.

Boðið verður upp á léttar kaffiveitingar.